Til að minnka loftslagsáhrif ferðalaga er að sjálfsögðu hægt að ferðast minna og að því ættu allir a…
Til að minnka loftslagsáhrif ferðalaga er að sjálfsögðu hægt að ferðast minna og að því ættu allir að huga. En á meðan flugvélar og önnur farartæki ganga enn fyrir jarðefnaeldsneyti er líka hægt að stuðla að kolefnisbindingu, til dæmis í trjágróðri. Dohop-ferðabókunarvefurinn býður nú viðskiptavinum að kaupa tré gegnum TreememberMe og trén verða gróðursett í þjóðskógunum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

TreememberMe býður nýjung í kolefnisbindingu með þátttöku í skógrækt. Notendur Dohop-flugleitarvélarinnar geta nú keypt tré með hjálp TreememberMe til mótvægis við þá losun sem hlýst af ferðalaginu. Trén verða gróðursett í þjóðskógunum þar sem þau binda kolefnið.

Fjallað var um þetta í Morgunblaðinu á laugardag, 2. nóvember, og þar segir:

Fólk sem kolefnisjafnar flugferðir sínar eða aðrar athafnir lífsins með því að kosta gróðursetningu trjáa í gegnum TreememberMe fær upplýsingar um staðsetningu og tegund trjánna og áætlaða kolefnisbindingu. Það getur því í fyllingu tímans heimsótt trjálundinn og skoðað trén. 

TreememberMe vinnur með Skógræktinni sem sér um sáningu og gróðursetningu trjánna og heldur utan um skógana sem verða til. Skógarnir verða því í eigu þjóðarinnar. 

Nýjungin hjá TreememberMe felst í því að það hefur þróað hugbúnað til að fólk geti séð hvar trjánum er plantað og af hvaða tegund þau eru. Það getur svo farið á staðinn og skoðað trén, í fyllingu tímans. „Við erum að reyna að gera plöntun trjáa aðgengilegri og skemmtilegri,“ segir Haukur Björnsson, einn eigenda félagsins. 

DoHop-flugleitarvélin býður öllum viðskiptavinum að kolefnisjafna ferðalög sín með aðstoð TreememberMe. Félagið hefur samið við fleiri fyrirtæki hérlendis og erlendis um kolefnisjöfnun. Öll skógræktin fer fram á Íslandi og má því leiða að því líkur að skógrækt á Íslandi verði gjaldeyrisskapandi, þegar fram líða stundir. 

DoHop býður farþegum til London að kaupa tvö tré og greiða fyrir 790 krónur og farþegum til Boston að kaupa sjö tré fyrir 2.765 kr., svo dæmi séu tekin.

Þurfum að breyta neysluhegðun okkar

Fleiri sjóðir og stofnanir vinna að kolefnisbindingu. Haukur segir að best sé að sem flestir geri það. „Við sem stöndum að þessu litla hugsjónafélagi erum miklir stuðningsmenn Kolviðar og Votlendissjóðsins. Aðalmálið er þó það að við öll, fyrirtæki jafnt og einstaklingar, breytum neysluhegðun okkar og séum meðvitaðri. Kaupum minna og kaupum betra. Það breytir þó ekki því að endurheimt skóga á Íslandi og um allan heim er alltaf góð hugmynd,“ segir Haukur.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson