Lýsing á 19 íslenskum yrkjum

Á vegum Yndisgróðurs hefur verið gefin út skýrsla í ritröð Lbhí með ítarlegri lýsingu á 19 íslenskum runnayrkjum sem hafa um langt skeið reynst vel í framleiðslu og ræktun við íslenskar aðstæður. Öll yrkin er að finna í yndisgörðum Yndisgróðurs. 

Grasafræðingurinn Hjörtur Þorbjörnsson og garðplöntusérfræðingurinn Ólafur Sturla Njálsson sáu um grasafræðilega lýsingu. Auk þess er fjallað um uppruna, notkun og reynslu af yrkjunum. Er þetta mikilvægur hluti af viðurkenningarferli íslenskra yrkja og liður í að meta gildi mikilvægra, valinna garð- og landslagsrunna sem íslenskra úrvalsplantna.

Yndisgróður er verkefni sem gengur út á að skilgreina, flokka, rannsaka og miðla upplýsingum um garð- og landslagsplöntur, þ.e. þann græna efnivið sem notaður er til uppbyggingar á grænum svæðum, görðum, útivistarsvæðum, skjólbeltum o.s.frv. Afrakstur verkefnisins er listi yfir yrki og kvæmi sem mælt er með í ræktun hérlendis og er hann birtur á vef verkefnisins.

Yndisgarðar eru sýnisgarðar á nokkrum stöðum á landinu þar sem áðurnefnd yrki og kvæmi eru ræktuð. Þangað getur fólk komið og séð hvernig plönturnar þrífast á viðkomandi stað og fengið hugmynd um hvernig tiltekin yrki eða kvæmi myndu eiga við í garði, skjólbelti eða skógi. Yndisgarðar eru á Reykjum í Ölfusi, á Blönduósi, í Sandgerði, Fossvogi og Laugardal í Reykjavík og á Hvanneyri. Garðurinn á Reykjum er aðalsafn Yndisgróðurs, garðurinn í Laugardal hefur sérstöðu sem rósasafn Yndisgróðurs og garðurinn á Hvanneyri nýtist við kennslu í Landbúnaðarháskólanum en allir eru garðarnir opnir almenningi til yndis og fræðslu.