Stytti að mestu upp áður en hátíðin hófst

Gleðin skein úr hverju andliti á fyrsta Skógardegi Norðurlands sem haldinn var í Kjarnaskógi á Akureyri laugardaginn 5. júlí 2014. Vel rættist úr veðrinu þótt ekki væri mjög hlýtt. Í hádeginu stytti upp eftir miklar rigningar og hélst að mestu þurrt.

Að deginum stóðu Norðurlandsskógar, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Eyfirðinga, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Skógfræðingafélag Íslands og gróðrarstöðin Sólskógar.


Dagurinn hófst á leiksýningu þar sem leikhópurinn Ás sýndi hluta úr frumsömdu verki sínu sem sýnt verður í Rósenborg á Akureyri næstu daga. Í hópnum eru ungmenni sem vinna skapandi sumarstörf hjá Akureyrarbæ. Þau hafa unnið að því að semja og æfa verkið undanfarnar vikur.

Á skógardegi Norðurlands var að sjálfsögðu kveiktur eldur með viði úr skóginum og hitað ketilkaffi, steiktar lummur, poppað í forláta pönnu og svo var hægt að vefja gerdeigi um grein og baka yfir eldi sem var sérlega vinsælt hjá krökkunum.

Efnt var til skógarhöggssýningar í lerkilundi sem gróðursett var í á sjötta áratug síðustu aldar. Sýnt var hvernig skógarhöggsmaður ber sig að með keðjusögina, fellir tréð, afkvistar og sagar í ákveðnar lengdir. Mikla lukku vakti þegar Benjamín Davíðsson, skógfræðingur og skógarhöggsmaður, sagaði út fallegan koll úr trjástubbnum sem hann skildi eftir þegar tréð var fellt. Áhorfendur fylgdust agndofa með verkinu og leikni skógarhöggsmannsins með sögina. Bergsveinn Þórsson, skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum, lýsti verkinu og þeim tækjum og tólum sem notuð eru við skógarhögg.

Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga, sá um sýningu sem kallaðist Frá fræi til fullunninnar vöru þar sem sýnd voru fræ nokkurra trjátegunda og trjáplöntur tilbúnar til gróðursetningar ásamt ýmsum öðrum plöntum sem eru til sölu í gróðrarstöðinni Sólskógum í Kjarnaskógi. Gestum þótti forvitnilegt að fá að smakka á kryddjurtum, til dæmis sætu jurtinni stevíu. Valgerður lýsti ferlinu frá því fræi er sáð og þar til planta er tilbúin og einnig voru sýnd handtökin við gróðursetningu með geispu.

Þriðja sýningin sem var í boði var skógarvélasýning þar sem Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, sýndi timburvagn félagsins sem notaður er til að flytja trjáboli úr skógi, eldiviðarvél sem bútar og klýfur eldiviðarefni, flettisög og stauravél.

Auk alls þessa var teflt í skóginum á litlu skákmóti sem fékk skjól fyrir veðri og vindum í grillskýli í skóginum. Um það bil tíu valinkunnir norðlenskir skákmenn öttu þar kappi.  Góð þátttaka var líka í ratleik um skóginn og var mál manna að Skógardagur Norðurlands væri vel til fundinn. Stefnt er að því að halda þennan viðburð aftur að ári.




Texti og myndir: Pétur Halldórsson