Frá skógardeginum í Selskógi 23. júní 2018. Ljósmynd: Valdimar Reynisson
Frá skógardeginum í Selskógi 23. júní 2018. Ljósmynd: Valdimar Reynisson

Skógardagurinn sem haldinn var í Selskógi í Skorradal 23. júní heppnaðist vel þrátt fyrir mikla úrkomu. Alls komu um 80 manns á viðburðinn og skemmtu sér hið besta við tálgun, brauðbakstur, söng, skógargöngu og happdrætti.  Reynir Hauksson gítarleikari lék tónlist og fuglarnir sungu með í skóginum.

Þessi dagur var skipulagður af Skógræktinni, Félagi Skógareigenda á Vesturlandi og Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Hann var einn 19 viðburða sem fram fóru í skógum landsins þennan dag og voru kynntir undir yfirskriftinni Líf í lundi.

Meðfylgjandi myndir Valdimars Reynissonar, skógarvarðar á Vesturlandi, segja meira en nokkur orð. Greinilegt að gleðin skín úr hverju andliti. Þjóðskógurinn Selskógur hentar greinilega vel fyrir skógardag sem þennan enda skjól í skóginum og hentugt útisvæði. Selskógur er miðsvæðis í Skorradal og þar er rekið tjaldsvæði í landi Indriðastaða.