Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um ný lög um skóga og skógrækt á Alþingi í gærkvöld. Skjámynd af uppt…
Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um ný lög um skóga og skógrækt á Alþingi í gærkvöld. Skjámynd af upptöku á vef Alþingis

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í gærkvöld fyrir nýjum lögum um skóga og skógrækt. Almennur stuðningur var við málið meðal þeirra þingmanna sem til máls tóku um frumvarpið. Nokkur umræða varð um áhrif laganna á eignarrétt, stofnanabyggingu ríkisins í auðlindanýtingu á landi og fleira. Ráðherra vonar að málið verði afgreitt frá þinginu fyrir áramót.

Ráðherra fór yfir að markmið núverandi laga frá 1955 hefðu að mörgu leyti náðst vel enda hefði byggst upp þekking og reynsla í skógrækt á Íslandi og árangur náðst í ræktuninni. Skógrækt hérlendis væri stunduð með margvíslegum markmiðum, til að mynda til atvinnusköpunar, byggðaþróunar, útivistar, lýðheilsu, viðhalds og eflingar umhverfisgæða, verndar náttúruskóga, verndar vistkerfa og bindingar gróðuhúsalofttegunda sem þáttar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Eldri lögin væru úrelt enda hefðu ýmis ný lög tekið gildi síðan sem snerta skógrækt með ýmsum hætti. Rakið var hvernig staðið hefur verið að undirbúningi nýrra skógræktarlaga. Frumvarp hefði verið lagt fram til fyrstu umræðu haustið 2017 og umhverfis- og samgöngunefnd unnið úr athugsemdum sem þar komu fram.

Breytingar sem gerðar hafa verið með tilliti til þessara umsagna snerta til dæmis gerð lands- og landshlutaáætlunar í skógrækt þar sem sett hefur verið inn ákvæði um að Skógræktin haldi skrá yfir alla skóga landsins og eins varðandi hluta Skógræktarinnar við umsjá þjóðskóga og annarra svæða í umsjón stofnunarinnar. Lög um skógrækt á lögbýlum verða hluti af heildarlögum um skógrækt gangi þetta frumvarp eftir. Sett eru inn ákvæði um að leyfi Skógræktarinnar þurfi til að fella skóg og um mótvægisaðgerðir til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum skógareyðingar. Guðmundur Ingi gerði svo nánari grein fyrir áhersluatriðum frumvarpsins. Þar kom meðal annars fram að gert væri ráð fyrir að ráðherra samræmdi landsáætlun í skógrækt og landgræðsluáætlun.

Engin áhrif á veg um Gufudalssveit

Tveir þingmenn óskuðu í upphafi umræðunnar að veita andsvar við máli ráðherra. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, lýsti ánægju sinni með að frumvarpið væri komið fram en spurði ráðherra um ákvæði í frumvarpinu sem snerta vernd og útbreiðslu náttúruskóga, hvort hann teldi að þessi ákvæði myndu hafa áhrif á og seinka veglagningu um Gufudalssveit. Ráðherra taldi að svo væri ekki.

Þörfin fyrir stjórnvaldssektir

Einnig tók til máls í andsvari Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, sem einnig lýsti ánægju sinni með frumvarpið. Hann gerði þó athugasemd við ákvæði í frumvarpinu sem heimila myndu Skógræktinni að leggja stjórnvaldssektir í tilvikum þegar ekki væri farið að ákvæðum um skógareyðingu. Slíkt ætti ekki að vera á höndum annarra stofnana en lögreglunnar og dómstóla. Hann spurði ráðherra hvort nauðsynlegt væri að veita stofnunum slíkar sektarheimildir.

Ráðherra svaraði því til að almennt væri þetta talin styttri leið til að takast á við brot í stað þess að fara gegnum lögreglu og dómstóla. Karl Gauti svaraði á móti að það væri ofmælt að sú leið að leita til lögreglu og dómstóla væri löng. Hann bætti við spurningu um þvingunarúrræði sem Skógræktinni yrðu gefnar heimildir til og snerta annars vegar dagsektir vegna tiltekinna framkvæmda og leyfi til að taka gjald fyrir fellingarleyfi. Ráðherra sagði mat sitt og ráðuneytisins að þetta væru skynsamlegar leiðir sem þarna væru boðaðar í frumvarpinu.

Skilgreining á hugtakinu skógarbóndi

Þá tók til máls Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún benti á mikilvægi nytjaskóga og að loftslagsáhrif nytjaðra skóga væru mun meiri en friðaðs skógar. Einnig nefndi hún að í lagafrumvarpið vantaði nánari skýringu á því hvað skógarbóndi væri. Sú skilgreining gæti til dæmis verið á þá leið að skógarbóndi væri sá bóndi sem ætti skóg, óháð því hvernig skógurinn var fjármagnaður. Í lögunum mætti einnig skilgreina að allir skógarbændur hefðu sömu réttindi gagnvart skattayfirvöldum, en nú fengju skógarbændur sem fjármagna skóga sína sjálfir ekki virðisaukaskatt endurgreiddan.

Hugmyndafræði eignarréttar

Nokkur orðaskipti urðu með Teiti Birni Einarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni Vinstri grænna, sem snertu eignarréttarmál í samhengi við loftslagsmál og fleira. Teitur Björn velti fyrir sér hvort ákvæði um að leyfi Skógræktarinnar þyrfti til að fella skóg fælu í sér skerðingu á eignarrétti og hvort verið væri að fela framkvæmdavaldinu of víðtækt vald sem gæti leitt til röskunar á eignar- eða atvinnurétti borgaranna. Sú umræða fór út í hugmyndafræðileg skoðanaskipti um mál sem snerta almannarétt.

Sameining stofnana

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, minnti í sínu máli á þau áhrif sem skógar hefðu á staðbundið veðurfar en hefðu ekki verið nefnd í umræðunni. Einnig að hafa þyrfti í huga mismunandi bindigetu trjátegunda í samhengi við aðgerðir í loftslagsmálum. Þá væri mikilvægt að huga að mögulegum ívilnunum til fyrirtækja sem legðu til skógræktar og að  hlutverk sveitarfélgaa og bænda væri mikilvægt. Hann nefndi takmarkið um sjálfbæra timburauðlind sem náðst gæti á fáeinum áratugum enda þyrfti ekki nema um 600 ferkílómetra nytjaskóga til að fullnægja þörfum Íslendinga fyrir timbur. Ari Trausti lagði líka til umræðunnar um eignarrétt og benti á að málið væri ekki einfalt þegar kæmi að eignarrétti á gæðum sem snerta allan almenning. Þar gæti verið þörf á takmörkun eignarréttar í almannaþágu, til dæmis sem snertir illa farið land, skerðingu skóglendis, vatnsból og fleira.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veitti andsvar við máli Ara Trausta, efaðist ekki um mikilvægi laganna en spurði Ara Trausta hvort hann teldi tekið nægilega vel á bindigetu mismunandi trjátegunda í frumvarpinu eða hvort einhverju þyrfti að bæta við um þau efni. Hún spurði jafnframt hvort vera kynni að huga þyrfti að sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar sem hefðu keimlík markmið. Ari Trausti taldi að sérfræðingar í skógrækt væru færastir til að meta hvaða tegundir ætti að nota hverju sinni og ekki þyrftu að vera ákvæði um það í lögunum. Um mögulega sameiningu stofnana sagðist hann lengi hafa talið að ein auðlindastofnun ætti að hafa með höndum allt sem snerti auðlindanýtingu á landi og endurheimt landgæða. Nú gæfist hins vegar ekki tími að vinna alla þá vinnu sem slíkt krefðist og tæki mörg ár. Nú gilti að uppfæra lög um skógrækt og landgræðslu. Bryndís óskaði í öðru andsvari eftir því að ráðherra reifaði þessi mál í ræðu sinni um ný landgræðslulög sem einnig voru á dagskrá sama fundar. Ari Trausti steig svo í ræðustól í þriðja sinn og sagðist m.a. telja að í framtíðar auðlindastofnun ættu þær rannsóknir sem Náttúrufræðistofnun hefur með höndum  einnig að vera undir.

Loks tók umhverfis- og auðlindaráðherra aftur til máls og lýsti ánægju sinni með þau jákvæðu viðbrögð sem frumvarpið hefði hlotið í umræðunni. Hann svaraði stuttlega nokkrum atriðum sem komu upp í umræðunni, óskaði því næst umhverfis- og samgöngunefnd velgengni í umfjöllun sinni um málið og vonaðist til þess að frumvarpið yrði afgreitt frá Alþingi fyrir áramót.

Texti: Pétur Halldórsson