Úr Mustila-trjásafninu.
Úr Mustila-trjásafninu.

Vandinn að rækta upp mótstöðuafl trjáa

Trjákynbætur sem efli mótstöðuafl trjáa verða meginviðfangsefni fyrstu ráðstefnu HealGenCAR sem haldin verður 7.-9. júní í Punkaharju í Finnlandi. HealGenCAR er samstarfsvettvangur um framhaldsrann­sóknir í skógarheilsu- og skóg­erfða­fræð­um til stuðnings líf­hagkerf­inu. Samstarfið nýtur stuðnings SNS, Samnorræna skógarrann­sókna, sem er samnorræn stofnun um skógrækt og skógarrannsóknir.

HealGenCAR er samstarfsnet þar sem sameinast fólk með þekkingu og færni í erfða-, sjúkdóma- og skordýrafræði trjáa. Meginmarkmið þess er að styðja við þróun á þessum sviðum og liðka fyrir því að bestu tiltæku aðferðirnar séu notaðar við að nýta og hirða um erfða­auðlindir skóganna en einnig í baráttunni við sjúkdóma og óværu.

Meginmarkmið fyrstu HealGenCAR-ráðstefnunnar er hins vegar að leiða saman fólk sem starfar að skóg­erfða­vís­ind­um, trjákynbótum og heilbrigðismálum skóga á Norðurlöndunum til að ræða þau mál sem nú eru efst á baugi og hvernig taka megi saman höndum um þessi efni framvegis. Dagskrá ráðstefnunnar skiptist í fræðilega fyrirlestra í ráðstefnusal 7.-8. júní en þriðja daginn er í boði kynnisferð sem hefst í Punkaharju en endar á Helsinkiflugvelli.

Inngangsfyrirlestra flytja bæði fræðimenn og fulltrúar þeirra sem nýta við og aðrar afurðir skóganna. Þessir fyrir­les­ar­ar fjalla til dæmis um nýja skaðvalda í skógum Norðurlanda, rotsjúkdóma, erfðir og möguleikana á að nota kynbætur í glímunni við þessi vandamál. Sömuleiðis er inngangsfyrirlesurunum ætlað að leiða í ljós sjónarhorn úr­vinnslu­iðn­að­ar­ins á skógarheilsu. Þá verða einnig fluttir tveir yfirlitsfyrirlestrar um hvernig nú er ástatt með óværu og sjúkdóma í norrænum skógum.

Til að liðka fyrir að fólk kynnist og frjósamar umræður skapist verða nokkrir viðburðir á dagskránni sem snerta félagsskap og menningu. Fyrsta kvöldið verður „kvöld við vatnið“. Þá verður farið í gufubað og grillað en einnig mega þátttakendur búast við óvæntum atriðum. Að kvöldi annars dagsins verður farið í stutta ferð um rann­sóknar­svæð­ið í Punkaharju og komið við á finnska skógarsafninu Lusto áður en hópurinn snæðir saman kvöldverð.

Í kynnisferðinni síðasta daginn verður litið á nokkrar felttilraunir í suðaustanverðu Finnlandi en einnig farið í hið fræga Mustila-trjásafn sem er í grennd við Elimäki. Ferðinni lýkur á Helsinki-flugvelli um kl. 17.30, tímanlega fyrir flug til allra helstu áfangastaða á Norðurlöndunum að Keflavík frátalinni.

Staður og gisting

Ráðstefnan fer fram í háskóla Austur-Karelíu í Punkaharju, Itä-Karjalan Kansanopisto. Rými er fyrir hluta ráð­stefnu­gesta á háskólasvæðinu en einnig hafa verið tekin frá hótelherbergi á Kruunupuisto-hótelinu sem er hálfan annan kílómetra frá. Gisting er bókuð á skráningarblaðinu.

Frekari upplýsingar um Punkaharju og nágrenni ásamt fleiri gistimöguleikum, afþreyingu og korti má finna á vefnum www.visitpunkaharju.fi/en.

Í boði að halda stutt erindi

Þátttakendum á ráðstefnunni býðst að halda stutta kynningu eða erindi (15 mín. + 5 mín. umræður) um verk sín og niðurstöður sem tengjast viðfangsefnum ráðstefnunnar. Tekið er við útdráttum fyrir þessar stuttu kynningar fram til 30. apríl og þeim skal skila með skráningarblaðinu.

Með útdrætti skal koma fram í þessari röð: Titill kynningar, nafn höfundar eða nöfn höfunda, tengsl við stofnanir eða annað, texti útdráttar (250 orð að hámarki). Í útdrætti mega EKKI vera myndir eða töflur. Útdrættinum skal skilað á Word-skjali.

Skráning

Skráning stendur fram til 30. apríl og fer fram á vefsíðunni https://www.lyyti.in/HealGenCAR_Conference.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson