Aukin skógrækt meðal leiða að markmiðinu

Akureyrarkaupstaður stefnir að því að verða fyrsta kolefnishlutlausa sveitarfélagið á Íslandi. Markmiðinu á að ná með ýmsum leiðum, meðal annars með aukinni skógrækt í bæjarlandinu. Sömuleiðis reiknast með í dæminu sá skógur sem þegar hefur verið ræktaður á Akureyri.

Fréttablaðið segir frá þessu í forsíðufrétt í dag og ræðir við nýráðinn verkefnisstjóra Vistorku ehf., Guðmund Hauk Sigurðsson tæknifræðing. Fram kemur í fréttinni að Vistorka sé nýstofnað fyrirtæki í eigu Akureyrarbæjar og því sé m.a. ætlað að vinna að þessu markmiði, að gera Akureyri að kolefnishlutlausu sveitarfélagi. Ráðist verði í aðgerðir sem stuðli að því að gera bæinn kolefnishlutlausan með því að nýta og endurvinna úrgang, stuðla að umhverfisvænni samgöngum og ýta undir skógrækt og matjurtaræktun heimila. Frétt blaðsins er á þessa leið:

Akureyri á að vera kolefnishlutlaus bær Hafin er vinna innan Akureyrarkaupstaðar um að gera bæinn kolefnishlutlausan. Með samstilltu átaki verður í fyrsta sinn reynt að kolefnisjafna heilt samfélag á Íslandi . "Lítið þarf til að takmarkið náist," segir verkefnisstjóri hjá Vistorku.

Gera á Akureyri að kolefnishlutlausu sveitarfélagi í náinni framtíð. Stofnað hefur verið fyrirtækið Vistorka ehf. í eigu Akureyrarkaupstaðar þar sem markmiðið verður kortlagt. "Frumforsendan er að bera saman bæ með um 20.000 íbúa sem notar eingöngu jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa, við bæ eins og Akureyri. Við undirbúning stofnunar Vistorku voru skoðuð áhrif þessara verkefna á kolefnisbókhald íbúa Akureyrarkaupstaðar," segir Guðmundur Haukur Sigurðarson, verkefnisstjóri hjá Vistorku.

Akureyrarbær og Vistorka munu ráðast í aðgerðir sem stuðla að því að gera bæinn kolefnishlutlausan með því að nýta og endurvinna

úrgang í samfélaginu, stuðla að umhverfisvænni samgöngum og ýta undir skógrækt og matjurtaræktun heimila. Kolefnishlutleysi snýst um að jafna út það magn koldíoxíðs sem leyst er út í andrúmsloftið með því að beisla það á aðra vegu, svo sem með endurnýtingu á orku.

"Bæir í Evrópu af sömu stærð og Akureyri sem nota kol, olíu eða gas sem orkugjafa losa gróflega um 100 milljón kíló af koldíoxíði árlega,"

segir Guðmundur Haukur. "Þar sem öll upphitun húsnæðis á Akureyri er með jarðvarma og raforkunotkun einnig kolefnisfrí, lækkum við töluna okkar um 57 milljón kíló. Einnig flokka Akureyringar lífrænan úrgang og búa til úr því áburð. Því eru aðeins um 30 milljón kíló eftir hjá okkur á Akureyri og er það fyrst og fremst vegna samgangna."

Lækkun kolefnislosunar íbúa vegna samgangna þarf ekki að vera íþyngjandi fyrir íbúana að mati forsvarsmanna Vistorku. Ýmsar minni aðgerðir eru þegar hafnar, skógrækt mun nýtast, og hefur þegar gert, og ný vatnsaflsvirkjun á Glerárdal mun einnig nýtast til þess að knýja um 7.500 rafmagnsbíla í bænum.

Texti: Pétur Halldórsson