Á umhverfisdeginum, föstudaginn 25. apríl sl., fékk sveitarstjóri Ölfuss undirritaðan til þess að flytja erindi í Þorlákshöfn um möguleikana á skógrækt á Þorlákshafnarsandi. Einnig var ég beðinn um að kynna verkefni sem unnið var í samstarfi við Ólaf Áka Ragnarsson, sveitarstjóra Ölfuss, og þrjá aðra nemendur af námskeiði hjá Endurmenntun H.Í. Í því verkefni var könnuð möguleg arðsemi þess að ?selja bindingu? í skógi á Þorlákshafnarsandi, í formi losunarheimilda, að uppfylltum ýmsum ytri skilyrðum, m.a. um þróun alþjóðlegs uppkaupamarkaðar á gróðurhúsalofttegundum á næstu árum. Erindið var n.k. blanda af þeim fyrirlestri sem fluttur var á Kirkjubæjarklaustri í lok febrúar (?Arðsemislíkan fyrir kolefnissvelg?) og eigin reynslusögum af því að kljást við skógrækt á sandorpnu hrauni á Þorlákshafnarsandi (tómstundagamni mínu).

Sá valinkunni fréttahaukur og ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins, Bjarni Harðarson, mætti í salinn skömmu eftir að flutningur erindisins hófst, tók myndir og ritaði frétt. Í frétt hans virðist eitt og annað hafa skolast til af því sem ég sagði í erindi mínu. Meðal annars virðist hafa farið fram hjá honum yfirlýsing mín, í upphafi erindisins, að verið væri að lýsa viðskiptahugmynd, en ekki rekstri raunverulegs fyrirtækis. Þótt vel megi vera að á næstu árum eða áratugum liggi björt framtíð í sölu losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda á alþjóðlegum uppkaupamarkaði, og ræktun skóga á Íslandi í því augnamiði, er slíkt enn ekki orðið að veruleika, og ekkert slíkt á döfinni af minni hálfu. Ýmislegt fleira smálegt er þarna líka missagt, t.d. varðandi notkun hugtaksins ?kolvetnisbinding?.  Kolvetnisbinding er manneldisvandamál, sem lýsir sér í söfnun fituvefs á mannslíkamanum (sbr. Atkins-kúrinn) en ég hef ekki fyrr heyrt kolvetnisbindingu nefnda í tengslum við skógrækt eða Kyoto-bókun.

Nú í vikunni birtist síðan meðfylgjandi frétt í Sunnlenska fréttablaðinu. Ég hafði fyrst spurnir af þessari frétt í gær þegar blaðamaður Morgunblaðsins hafði samband við mig og vildi vita nánari deili á ?fyrirtækinu Íslensk kolefnisbinding?.  Tók það mig allmikinn tíma að sannfæra blaðamanninn um að ég væri ekki byrjaður að ?höndla með heitt loft? og að framkvæmdir sem skapa myndu 800 störf væru ekki enn hafnar! Að fyrirtækið ?Íslensk kolefnisbinding? væri ekki einu sinni komið með kennitölu!

Vinsamlegast komið þessum skilaboðum til allra þeirra áhættufjárfesta sem kanna vilja þennan góða fjárfestingarkost; fyrirtækið sem Sunnl. fr.bl. segir að ég sé farinn að reka!

Kær kveðja,

Aðalsteinn Sigurgeirsson

  

8000 hektara sandi við Þorlákshöfn breytt í skóg: Kolefnisbindingin seld á alþjóðamarkaði (Sunnlenska fréttablaðið, fimmtudaginn 8. maí 2003)

 

Í Þorlákshöfn er hafið verkefni sem miðar að ræktun á 8000 hektara skóglendi á örfoka sandi ofan við byggðina í Þorlákshöfn. Með ræktuninni er ætlunin að skapa arðbært verkefni með því að selja kolefnisbindingu skógarins á alþjóðlegum markaði. Samhliða var skrifað undir samning milli Sveitarfélagsins Ölfuss og Skógræktarfélags Íslands um að láta land undir skógrækt sem fjármagnað verður með sjóði sem íslenskir tónlistarmenn hafa komið upp í minningu Joe Strummer í Clash.

Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður á Mógilsá kynnti skógræktarverkefnið sem hann hefur unnið að ásamt bæjarstjóra Ölfuss og nemendum við Endurmenntun HÍ. Verkefnið byggir á því að nýlega eru orðnir til alþjóðlegir markaðir fyrirtækja sem kaupa svokallaða koldíoxíðkvóta þar sem kolvetnistonnið [svo! koldíoxíðtonnið] er selt á allt að 1620 kr. Þetta byggir á því að innan skamms verða fyrirtæki sem losa svokallaðar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið skylduð til að mæta þeirri mengun með kolvetnisbindingu [svo!].  Þá skiptir ekki máli hvar á jarðarkringlunni kolvetnisbinding [svo!] fer fram og skógræktarverkefni eins og það sem nú er verið að hleypa af stokkunum við Þorlákshöfn geta tekið þátt í alþjóðlegum útboðsmarkaði.

Í erindi sínu skýrði Aðalsteinn meðal annars frá skógræktarverkefni sem hann og fjölskylda hans hafa staðið fyrir á sumarbústaðalóð skammt frá Þorlákshöfn þar sem ræktunarskilyrði eru mjög lík þeim sem eru á Þorlákshafnarsandi. Á nokkrum árum hefur þar tekist að breyta gróðursnauðu landi í ræktarlegan skóg og á því hafa verið reyndar flestar þær gerðir skógarplantna sem notaðar eru á Íslandi.

Áætlað er að fullplanta allt svæðið á Þorlákshafnarsandi innan 8 ára. Fyrirtækið sem hefur hlotið nafnið Íslensk kolefnisbinding gerir samning við landeigendur um kostnaðarlaus afnot af landinu til 108 ára og gengið er frá sömu arðsemiskröfu og ert er í virkjunum fyrir stóriðju á Íslandi. Auk tekna af kolefnisbindingu er reiknað með tekjum af söluverðmæti viðarafurða og í áætlun er gert ráð fyrir að skapa allt að 800 störf þegar verkefnið er komið í fullan gang.