Sverrir A. Jónsson, sem unnið hefur að MS verkefni sínu við HÍ í samstafi við Skógrækt ríkisins og Héraðsskóga mun halda lokafyrirlestur um verkefnið í Öskju (stofu 131) föstudaginn 5 júní kl 14.00. 

Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla gagna sem gætu skýrt gróðurfarssögu Fljótsdalshéraðs síðastliðin 2000 ár og kanna orsakir hnignunar skóga héraðsins. Rannsóknin var gerð á tveimur mismunandi gagnasöfnum. Í fyrsta lagi var gerð nákvæm rannsókn á öllum sagnfræðilegum heimildum um gróðurfar og veðráttu á Austurlandi frá landnámi. Í öðru lagi var gerð frjókornarannsókn á sýnum úr setkjarna er tekinn var úr tjörn innan Hallormsstaðarskógar. Sá kjarni spannar um það bil 2000 ár. Setið í kjarnanum var einsleitt vatnaset er innihélt mörg öskulög. Öskulagatímatal var útbúið fyrir kjarnann og við það notuð sex þekkt öskulög. Niðurstöðum frjókornarannsóknarinnar var skipt upp í sex kafla (zones) og hver þeirra táknaði mismunandi gróðurfarsaðstæður. Þessir kaflar voru síðan notaðar til túlkunar gróðurfarssögu svæðisins. Við landnám var svæðið umhverfis tjörnina þakið skógi, en skógurinn hörfaði hratt eftir landnám. Á 15. öld sótti skógurinn fram á ný og var frekar gróskumikill allt fram á miðja 18. öld en þá hörfaði hann hratt. Þessi hörfun hélt áfram allt til upphafs 20. aldar þegar skógurinn var friðaður. Áhrif mannsins virðast hafa skipt sköpum hvað varðar ástand skógarins eftir landnám en veðurfar virðist hafa haft minni áhrif. Staður: HÍ, Askja, Stofa 131, Föstudaginn 5 júní kl 14.00.  

Leiðbeinendur: Prófessor Ólafur Ingólfsson, HÍ og Dr. Ólafur Eggertsson, Skógrækt ríkisins, Mógilsá  
Prófdómari: Dr. Egill Erlendsson  

Allir velkomnir