Úr ferð um Nevada og Kaliforníu


Þegar eyðimerkur Nevada og austurhluta Kaliforníu eru bornar saman við eyðimerkur Íslands, þá er einn munur sérstaklega sláandi; hvað þær fyrrnefndu eru miklu betur grónar. Gróðurinn er að vísu þyrrkingslegur en hann er nokkuð samfelldur. Mest áberandi eru runnar af körfublómaætt sem kallast á ensku rabbitbrush og sagebrush, en þeir fyrrnefndu voru blómstrandi gulum blómum þegar íslenskt skógræktarfólk fór um þessar eyðimerkur í lok september.

 

Meiri áhuga vakti þó furutegundin Pinus monophylla, sem víða myndaði gisna skóga í fjöllunum. Furur bera nálar sínar í knippum, sem eru í raun dvergsprotar á greinunum svipað og á lerki. Furuættkvíslinni er skipt í tvennt á grundvelli þess og er gjarnan talað um tveggja-nála furur (t.d. stafafura) og fimm-nála furur (t.d. lindifura) eftir því hversu margar nálar eru í hverju knippi. Ekki fylgja þó allar furur þessari meginreglu. Sumar tveggja-nála furur eru með þrjár eða jafn vel fjórar nálar í knippi og til eru fimm-nála furur sem eru með færri en fimm. Ein þeirra er aðeins með eina nál í knippi, og því vart hægt að tala um knippi. Það er þessi í eyðimerkurfjöllum Nevada og Kaliforníu og kallast á ensku single-leaf pinyon. 


Pinyon-skógarnir eru mjög heillandi. Vegna þurra loftslagsins eru þeir náttúrlega gisnir og auðvelt að ganga um þá. Trén eru oftast aðeins 2-5 metrar á hæð, kræklótt en oftast einstofna með breiða krónu. Þetta eru skógar bonsai-trjáa. Fræ þessarar furu eru mjög stór og voru áður mikilvæg fæðuuppspretta frumbyggja á svæðinu. Nú eru það einkum nokkrar tegundir fugla og íkorna sem njóta þeirra. Fyrir vikið eru skógarnir mjög líflegir þrátt fyrir eyðimerkurloftslagið.

 

Ekki þykir fyrirfram líklegt að einnarnálarfura geti þrifist á Íslandi. Í Hvítufjöllum Kaliforníu vex hún þó í tæplega 3000 m hæð og þar aðeins ofar vex broddfura, sem þrífst á Íslandi. Meira um hana í næsta pistli.  

Myndir og texti: Þröstur Eysteinsson