Í fyrirsögn á vef Preem er orðaleikur með fjárfestingu sem fór í skóginn en „gå åt skogen“ þýðir á s…
Í fyrirsögn á vef Preem er orðaleikur með fjárfestingu sem fór í skóginn en „gå åt skogen“ þýðir á sænsku að fara í súginn. Þetta eru því öfugmæli enda mikil tækifæri í endurnýjanlegum orkugjöfum um þessar mundir.

SunPine í Piteå framleiðir hráefni til eldsneytisgerðar úr aukaafurðum pappírsiðnaðar

Í sænska bænum Piteå, sem er á svipaðri breiddargráðu og Akureyri, hefur með nýsköpunarfyrirtækinu SunPine verið sýnt fram á að framleiða megi í stórum stíl endurnýjanlegt eldsneyti á hefðbundna bíla og nota til þess aukaafurðir frá skógariðnaðinum. Dísilolía úr slíkum afurðum er þegar komin á markað í Svíþjóð og stefnt er að því að framleiða einnig bensín.

Mun minni koltvísýringslosun

SunPine vinnur eldsneytið úr furuolíu sem til fellur við framleiðslu á pappamassa í sænskum pappírsverksmiðjum. Úr olíunni fæst hrádísilolía sem síðan er flutt til frekari vinnslu hjá fyrirtækinu Preemraff í Gautaborg. Lokaafurðin þar kallast Preem Evolution Diesel sem er til helminga hefðbundinn dísill og furudísill. Þetta eldsneyti dugar fullkomlega í stað venjulegs óblandaðs dísils úr jarðolíu og með notkun þess segir á vef Preem að koltvísýringslosun bílsins minnki um allt að 46%. Fram kemur í frétt á vef Preem að síðustu sex árin hafi notkun þessarar sjálfbæru dísilolíu dregið úr koltvísýringslosun um 3,2 milljónir tonna sem samsvarar losun hálfrar annarrar milljónar fólksbíla.

Græn störf fyrir byggðir landsins

Framleiðslan þarf að sjálfsögðu að standa undir sér og geta keppt við hefðbundið eldsneyti. Markmiðið er að Svíar geti framleitt sem mest af samkeppnishæfri og sjálfbærri orku og í því augnamiði ákváðu forsvarsmenn sænska olíufélagsins Preem að fjárfesta í verkefninu SunPine í Piteå ásamt fleiri fyrirtækjum svo sem Sveaskog og Södra. Auk umhverfislegs ávinnings af verkefninu skapast græn störf í dreifðum byggðum landsins og möguleikar til nýsköpunar.

Við dísilframleiðsluna verða jafnframt til aukaafurðir sem nýta má til annarra hluta. Fyrirtækið framleiðir nú hráefni til lím- og ilmefnaframleiðslu ásmt sjálfbærri olíu til uppkveikju. Þar fyrir utan er mögulegt að í framtíðinni verði framleidd úr þessum aukaafurðum efni til lyfjagerðar. 

Allra hagur

Með rannsóknum og þróun vill olíufélagið Preem stuðla að því að byggja megi upp fleiri fyrirtæki á borð við SunPine, nýta fleiri aukaafurðir skógariðnaðarins og meðal annars framleiða grænt bensín auk dísils. Þannig megi nýta úrvinnslustöðvar betur til framleiðslu á lífhráefnum en líka þoka Svíþjóð nær því marki að geta orðið sjálfu sér nógt um eldsneyti og náð markmiðum sínum í loftslagsmálum. Um leið skapist græn störf og ný fyrirtæki verði til. Það sé allra hagur.

Á vef Preem má fræðast nánar um þessi verkefni.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson