Séð yfir svæðið úr hlíðum Staðarfjalls. Næst er gróðursetti reiturinn og utan hans má sjá útbreiðslu…
Séð yfir svæðið úr hlíðum Staðarfjalls. Næst er gróðursetti reiturinn og utan hans má sjá útbreiðslu stafafurunnar til suðausturs. Ljósmynd: Ólafur Eggertsson

Út er komin grein um rannsóknir á sjálfsáningu stafafuru í Steinadal í Suðursveit. Í ljós kemur að furan dreifir sér þéttast næst gróðursettum skógi í dalnum en þegar fjær dregur verður sjálfsáning birkis mun þéttari og aðeins furur á stangli innan um. Mjög fáar furur sáðu sér út í þéttustu gróðursvæðin og engin inn í gamla birkiskóginn í Steinadal. Furan nær sér helst upp á gróðurlitlum áreyrum. Höfundar telja mikilvægt að rannsaka útbreiðslu stafafuru víðar um landið.

Greinin er á ensku og ber titilinn Natural Regeneration of Lodgepole Pine (Pinus contorta) in Steinadalur, SE-Iceland. Aðalhöfundur er Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, en meðhöfundar Delfina Andrea Castiglia og Marco Carrer sem bæði starfa við háskólann í Padúu á Ítalíu.  Í inngangi greinarinnar er farið yfir eiginleika stafafuru sem er ein helsta tegundin í nýskógrækt hérlendis. Hún þrífst í ýmsum jarðvegsgerðum, þolir vel vorfrost og loftmengun og getur aðlagað sig ólíkum veðurskilyrðum. Ræktun stafafuru hófst á Íslandi um 1940 og fyrstu sjálfsáðu plönturnar fundust á Hallormsstað um 1976.

Greint er frá því að stafafura hafi verið flokkuð sem ágeng tegund á Nýja-Sjálandi, í Patagóníu, Síle og Argentínu. Hins vegar bendi nýleg rannsókn í Svíþjóð til þess að sjálfsáning hennar sé lítil á norðlægum breiddargráðum og ekki sé litið á hana sem ágenga tegund þar sem hægt er að hafa stjórn á dreifingu hennar.

Sjálfsáning úr 60 ára skógi

Loftmynd af rannsóknasvæðinu. Gróðursetta svæðið er markað með rauðri línu.  Svarta línan sýnir útbreiðslusvæði furunnar 2010 en sú hvíta árið 2020 (66 ha). Bláa línan sýnir hvar þversnið var tekið en svæðin þar sem finna má gróðursetta furu eru afmörkuð annars vegar með rauðum en hins vegar með bláum lit. Mynd úr grein Ólafs og félaga Svæðið sem tekið var til rannsóknar í verkefni Ólafs Eggertssonar og félaga er í Steinadal í Suðursveit. Þar í fjallsrótunum hófst gróðursetning innfluttra tegunda árið 1954. Stafafura var gróðursett þar fyrst 1959. Gróðursettar voru 300 þriggja ára plöntur af Skagway-kvæmi, og hélt sú gróðursetning áfram næsta áratuginn. Fyrstu sjálfsánu fururnar utan skógræktargirðingarinnar fundust 1985 en annars er birki ríkjandi trjátegund á svæðinu og mikið að breiðast út með minnkandi beit.

Af einhverjum ástæðum hefur sjálfsáning stafafuru reynst hraðari í Steinadal en í öðrum elstu furureitum landsins. Markmið rannsóknar Ólafs og félaga var annars vegar að meta hversu mikil dreifingin væri og þéttleiki hennar. Í öðru lagi vildu þau kanna breytingarnar sem orðið hafa frá því að þetta var athugað síðast árið 2012. Vettvangsvinnan fór fram sumarið 2020 og meðal annars var sverleiki og hæð allra trjáa mæld á 200 fermetra mælireitum með 20 metra millibili þar til engar furur fundust lengur í reitum. Í ljós kom að árlegur útbreiðsluhraði áranna 1985-2010 hafði verið um ellefu metrar en jókst í fjórtán metra þegar tímabilið 1985-2020 var skoðað. Frá 2010 til 2020 var þessi tala 23 metrar á ári og þá var svæðið sem fura hafði dreift sér á orðið yfir 66 hektarar. Dreifingin er hins vegar mun meiri til suðurs en norðurs, og þá furu sem lengst hafði sáð sér frá upprunalega gróðursetta svæðinu var að finna í 760 metra fjarlægð.

Furan velur gróðurlitlu svæðin

RFjöldadreifing sjálfsáinna plantna þriggja algengustu trjátegundanna á svæðinu með tilliti til fjarlægðar frá ræktaða reitnum. Staðsetning sniðsins sést á myndinni að ofan. Graf úr grein Ólafs og félagaannsóknin leiðir í ljós að þegar komið er í 200 metra fjarlægð frá gróðursetta reitnum er þéttleiki sjálfsáinna furuplantna innan við 50 plöntur á hektara. Næst gróðursetta reitnum eru furur í meirihluta, bæði hvað varðar þéttleika og stærð, en eftir því sem fjær dregur eykst þéttleiki sjálfsáins birkis og aðeins einstaka furur á stangli. Með öðrum orðum dreifir furan sér þéttast næst gróðursettum skógi í dalnum en þegar fjær dregur verður sjálfsáning birkis mun þéttari og aðeins furur á stangli innan um. Mjög fáar furur sáðu sér út í þéttustu gróðursvæðin og engin inn í gamla birkiskóginn í Steinadal.

Sýnt er í greininni að dreifing furunnar virðist ekki jöfn heldur hafi flestar fururnar sprottið upp á gróðurlitlum sandeyrum en síður uppi í brekkunum og næstum engar furur fundust þar sem gróðurþekjan er þéttust. Engin sjálfsáin fura fannst í gamla birkiskóginum í Steinadal.

Í samanburði við mikla útbreiðslu stafafuru á hlýrri svæðum í Síle draga greinarhöfundar þær ályktanir að meðalþéttleiki sjálfsáinna furuplantna hafi verið mun hærri þar, væntanlega vegna hærri meðalhita. Hámarksfjarlægð þeirra frá upprunastaðnum hafi hins vegar verið meiri í Steinadal en þar er mun vindasamara. Í þriðja lagi sé ljóst að í báðum löndunum hafi verið greinilegt samhengi milli þéttleika gróðurþekjunnar og þess hversu vel furunni gekk að sá sér út.

Frekari rannsókna þörf

Niðurstaða Ólafs Eggertssonar og félaga er að með tímanum muni stafafuran halda áfram að breiðast út í Steinadal, sérstaklega á gróðurlitlum áreyrunum. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa því ferli sem er í gangi varðandi útbreiðslu sjálfsáinnar stafafuru en ekki að leggja mat á jákvæðar eða neikvæðar afleiðingar hennar. Nauðsynlegt sé að gera frekari rannsóknir á útbreiðslu sjálfsáinnar stafafuru víðar um Ísland til að skilja betur eðli hennar og áhrif á þann gróður sem er fyrir.

Hvað varðar frekari rannsóknir er vert að geta þess að nú hefur mæliflötum í nágrenni ræktaðra skóga verið bætt við árlegar úttektir Skógræktarinnar í verkefninu Íslenskri skógarúttekt, eins og sagt var frá hér fyrr í vikunni á skogur.is. Gögnin sem þar safnast munu m.a. gefa mikilvægar upplýsingar um sjálfsáningu trjátegunda vítt og breitt um landið.

Texti: Pétur Halldórsson