Stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins á sínum fyrsta fundi í Valaskjálf á Egilsstöðum…
Stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins á sínum fyrsta fundi í Valaskjálf á Egilsstöðum 19. janúar. Í hópnum sitja yfirmenn þeirra stofnana sem meiningin er að sameina ásamt ráðgjafa frá Capacent.

Samráðshópar starfsmanna að störfum og skila stöðumati til stýrihóps

Vinna að undirbúningi sameiningar Skógræktar ríkisins, Landshlutaverkefna í skógrækt og Hekluskóga gengur vel. Í janúarmánuði var settur saman stýrihópur skipaður yfirmönnum viðkomandi stofnana. Hittist hann í fyrsta sinn stuttlega á Egilsstöðum 21. janúar að loknum sameiginlegum starfsmannafundi stofnananna og svo aftur 25. janúar á sínum fyrsta eiginlega vinnufundi. Þar var starfið fram undan skipulagt og skipað í samráðshópa starfsfólks um mótun nýrrar stofnunar. Ráðgjöf og umsjón með þessu starfi er í höndum Capacent og aðalráðgjafi þar er Arnar Jónsson.

Samráðshóparnir eru þrír og er þeim ætlað að greina nánar stöðu starfseminnar og helstu áskoranir og sóknarfæri til framtíðar. Úr þessari vinnu hvers hóps verður unnið stöðumat sem meiningin er að kynna í upphafi stefnumótunarfundar í lok febrúar. Hópstjórar samráðshópanna sjá um að kynna stöðumatið fyrir stýrihópnum. Þarna verður með öðrum orðum leitast við að .laða fram viðhorf og hugmyndir starfsfólksins um nýja stofnun, væntingar þeirra og áherslur.

Í hverjum samráðshópi sitja um það bil tíu mann. Hefur hver hópur sitt hlutverk. Sá fyrsti fjallar einkum um innri mál stofnunarinnar, annar um fagleg mál og sá þriðji um ytri mál. Hóparnir hittust í fyrsta sinn þriðjudaginn 2. febrúar í húsakynnum Capacent við Ármúla í Reykjavík og allir hittast þeir aftur á næstu dögum. Þá kemur í ljós hvort hópunum dugar að hittast tvisvar til að ljúka vinnu sinni en ef ekki koma þeir saman þriðja sinni á næstu vikum.

Nánari fregnir verða fluttar hér á vef Skógræktar ríkisins að loknum næsta fundi stýrihópsins sem verður á fimmtudag, 11. febrúar.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson