Freyr Ævarsson heldur fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt „Frostþol og skyldleiki alaskaaspar (Populus balsamifera ssp. trichocarpa) á Íslandi“ föstudaginn 5. október 2007, kl 16.00 í stofu 132 í Öskju.

Markmið verkefnisins voru að ákvarða frostþol mismunandi klóna alaskaaspar á Íslandi, skyldleika þeirra og samspil þar á milli. Niðurstöðurnar voru notaðar til að kanna tengsl á milli frostþols að vori og hausti og samspil milli vaxtargetu og frostþols að vori. Öll helstu markmiðin náðust. Frystingar vorið 2004 og haustið 2005 tókust mjög vel og var hægt að flokka þá klóna sem frystir voru í hvort skipti í þrjá hópa: „góða“, „miðlungs“ og „slæma“. Þá fannst marktækt neikvætt samband milli frostþols klóna að vori og vaxtar þeirra við náttúrulegar aðstæður.

Greining á skyldleika tókst afar vel og aðgreindi aðferðin, sem notuð var, um 95% sýnanna. Nokkuð skýr hópamyndun kom fram í skyldleikatrénu. Mismunandi tegundir innan víðiættarinnar aðgreindust vel og einnig kom fram skýr munur á milli undir­tegundanna balsamaspar og alaskaaspar. Innan alaskaaspar var einnig greinileg hópamyndun, þar sem klónar frá strandsvæðum Alaska greindu sig að mestu frá klónum sem upprunnir eru innar í landinu. Þó var nokkur skörun þarna á milli sem gæti bent til flutnings erfðaefnis milli þessara svæða. Strandklónar reyndust almennt vera frostþolnir að vori en innlandsklónar ekki. Nokkur dæmi eru um að klónar, sem taldir hafa verið einn og sami klónninn, hafi aðgreinst og í raun sé um tvo ólíka klóna að ræða. Með rannsókninni fengust í fyrsta skipti verðmætar upplýsingar um skyldleika fjölmargra klóna alaskaaspar á Íslandi og frostþol þeirra.

Umsjónarkennari er Kesara Anamthawat-Jónsson, aðalleiðbeinandi Guðmundur Halldórsson og meðleiðbeinendur Aðalsteinn Sigurgeirsson, Halldór Sverrisson og prófdómari er Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.