Ýmiss konar aðstaða er fyrir gesti skógarins í Haukadal, t.d. stígur sem sérstaklega er gerður fyrir…
Ýmiss konar aðstaða er fyrir gesti skógarins í Haukadal, t.d. stígur sem sérstaklega er gerður fyrir hreyfihamlaða. Grillhúsið hefur sligast nokkuð undan snjófargi undanfarna vetur og þarfnast endurbóta. Mynd: Pétur Halldórsson

Öll verkefnin hlutu mjög jákvæða umsögn sjóðsins

Nokkur verkefni í skógum Skógræktar ríkisins á Suðurlandi hljóta styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á þessu ári. Lagfærðir verða göngustígar við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri, gert við grillhús og fleira á áningarstað í Haukadalsskógi, komið upp salernisaðstöðu við Hjálparfoss og unnið að viðhaldi og merkingum gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu.

Styrkir til þessara verkefna nema alls tæpum 25 milljónum króna. Til afmörkunar og viðhalds gönguleiða og styrkingar gróðurs ofan við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri eru veittar 1,3 milljónir króna. Þessar úrbætur eru nauðsynlegar til að vernda gróður og bæta öryggi ferðafólks á staðnum. Sífelld aukning ferðamanna bæði sumar og vetur veldur því að nú stórsér á gróðri á svæðinu milli Systrafoss og Systravatns. Markmið verkefnisins er að lagfæra þær skemmdir og reyna að koma í veg fyrir frekari skemmdir með afmörkun stíga og uppbyggingu þeirra. Í umsögn sjóðsins segir að þetta sé látlaust en mikilvægt verkefni sem tryggi náttúvernd og auki öryggi við Systrafoss. Aðferðafræðin við gerð stíganna sé til fyrimyndar þar sem sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi.


Endurbygging bálskýlis og áningarstaðar í Haukadalsskógi hlýtur 1.150 þúsund króna styrk. Þak bálskýlisins sem brotnaði undan miklu snjófargi í ársbyrjun 2015 verður lagfært en endurnýta má undirstöður skýlisins og þakklæðningu að hluta til. Þetta segir sjóðurinn að sé gott verkefni vegna náttúruverndar og skorts á grunnaðstöðu fyrir ferðamenn á svæði sem sé vinsæll áfangastaður. Vel hafi verið staðið að uppbyggingu svæðisins hingað til.

Stærsti einstaki styrkurinn sem veittur er til svæðis í umsjá Skógræktar ríkisins nemur 9,1 milljón króna og rennur til uppbyggingar á salernisaðstöðu við Hjálparfoss sem opin verður allt árið. Komið verður fyrir rotþró og lagðar rafmagns- og vatnsleiðslur að svæðinu. Skeiða- og Gnúpverjahreppur leggur sjálft salernishúsið endurgjaldslaust til verkefnisins. Þetta er mikilvægt innviðaverkefni á stað þar sem skortir grunnaðstöðu, að mati sjóðsins.


Loks veitir Framkvæmdasjóður ferðamanna­staða tvo styrki til viðhalds og merkinga á Þórsmerkursvæðinu, 4.725 þúsund krónur til Skógræktar ríkisins og 8.610 þúsund krónur til Vina Þórsmerkur, samtals nokkuð á fjórtándu milljón. Styrkirnir gera kleift að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á liðnum árum. Þetta er framhald á vel unnu verkefni vegna náttúruverndar, aðgengis- og öryggismála á viðkvæmu svæði undir síauknu álagi ferðamanna, eins og segir í umsögn sjóðsins.

Vinir Þórsmerkur voru stofnaðir af ferðaþjónustuaðilum sem hafa starfsemi í Þórsmörk; Ferðafélagi Íslands, Ferðafélaginu Útivist, Farfuglum og Kynnisferðum, auk Rangárþings eystra og Skógræktar ríkisins. Auk þess starfs sem unnið er á vegum Vina Þórsmerkur er rétt að nefna einnig hið öfluga starf erlendra sjálfboðaliða sem unnið er á hverju ári undir merkjum Þórsmörk Trail Volunteers.Sjálfboðaliðarnir leggja og lagfæra stíga, stöðva jarðvegsrof og græða rofsár meðal annars.

Texti: Pétur Halldórsson