Mjúkur pensill er notaður til að koma frjókornunum í frævur lerkiblómanna
Mjúkur pensill er notaður til að koma frjókornunum í frævur lerkiblómanna

Blómgun allmikil á lerkinu þetta árið

Starfsfólk Skógræktar ríkisins á Norðurlandi og Norðurlandsskóga kom saman í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal í gær til að bera frjó milli evrópu- og rússalerkitrjánna sem þar eru ræktuð og búa til lerkiblendinginn ʽHrymʼ. Útlit er fyrir góða fræuppskeru í ár.

Besta uppskeran af Hrymsfræi hingað til náðist haustið 2013. Hún fékkst í kjölfar þess að vorið 2012 var skorið á börk trjánna neðarlega á stofninum til að örva blómgun þeirra. Trén bregðast við þessu áreiti með því að reyna sem mest þau geta að fjölga sér. Þau blómgast því vel og þar með gefst færi á meiri fræuppskeru. Þetta er þó ekki hægt að gera nema á nokkurra ára fresti því trén þurfa að jafna sig á milli. Fleira getur þó aukið blómgun, til dæmis sólríkt sumar. Sumarið 2014 var á köflum mjög sólríkt á Norðurlandi, einkum framan af, og það kann að hafa orðið til þess að lerkið í fræhöllinni blómgast nú af krafti.


Myndarleg blóm á evrópulerki.

Nokkuð kemur reyndar á óvart að talsvert meira er nú af karlblómum á trjánum en kvenblómum. Þessu hefur gjarnan verið öfugt farið og þá hefur þurft að fara sparlega með frjóduftið til að það dygði. Nú er fjöldi karlblóma sérstaklega áberandi á sumum rússalerkitrjánum. Þessi góða blómgun karlblóma gerir að verkum að af nógu var að taka þegar trén voru frævuð í gær. Ef afgangur verður af frjódufti má hæglega geyma það til næsta árs og nýta ef þörf verður á.


Þröstur Eysteinsson.

Þröstur Eysteinsson skógerfðafræðingur stýrir fræræktinni á ʽHrymʼ. Frævunin fer þannig fram að stórt pappírsblað er sett undir grein og greinin síðan hrist til að duftið falli á blaðið. Byrjað er neðst á trénu og svo farið upp eftir því grein af grein. Duftinu er hellt í sérstaka bakka úr samanbrotnum pappírsörkum sem handhægt er að nota þegar duftinu er penslað á kvenblómin. Við frævunina er með svipuðum hætti byrjað neðst á trénu, innsta blómið á hverri grein frævað fyrst og svo út eftir greininni og koll af kolli upp allt tréð.


Bæði karl- og kvenblóm rússalerkis eru kubbslegri en á evrópulerki.

Blómin á lerkitrjánum eru nokkuð breytileg frá einu tré til annars hjá hvorri tegund fyrir sig en líka milli tegundanna. Sum kvenblómin eru algræn en önnur með mismikilli bleikri slikju yfir í bleikrauð. Lögun þeirra er líka nokkuð misjöfn en á evrópulerkinu eru kvenblómin heldur reistari. Þau standa ofan á greinunum en karlblómin neðan á. Frjóduftið er karrígult á litinn og þótt ekki finnist mikill ilmur af stöku blómi safnast hann þegar saman kemur og á blómgunartímanum liggur mildur blómailmur í lofti í fræhöllinni á Vöglum. Það er því skemmtilegt að geta tekið forskot á vorsæluna, andað að sér blómailmi og notið litadýrðar í hlýju gróðurhúsinu en lagt í leiðinni sitt að mörkum til að stuðla að ræktun á beinvöxnu og hraðvaxta lerki í íslenskum skógum.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá frævunardeginum í fræhöllinni á Vöglum í gær, þriðjudaginn 7. apríl 2015.


Teitur Davíðsson safnar frjói af evrópulerki. Ef vel er rýnt má sjá frjóduftið
sem fellur á pappírsörkina.


Valgerður Jónsdóttir einbeitt á svip við frjósöfnunina.


Rakel Jónsdóttir safnar frjói af evrópulerki.


Hallgrímur Indriðason hellir frjói í bakka.


Brynjar Skúlason penslar frjói af evrópulerki á kvenblóm rússalerkis.


Bergsveinn Þórsson kominn upp í stiga til að ná til efstu blómanna á lerkinu.


Auðvelt er að stýra hitastiginu og þar með vorkomunni með tækjabúnaðinum
í fræhöllinni á Vöglum.


Sjónvarpsþátturinn Landinn kom í heimsókn í fræhöllina á Vöglum til að gera
ræktun 'Hryms' skil. Á myndinni eru frá vinstri Guðni Þorsteinn Arnþórsson,
Þröstur Eysteinsson, Gunnlaugur Starri Gylfason myndatökumaður
og Þórgunnur Oddsdóttir sjónvarpskona.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson