Fræðslunefndin í góðu skjóli. Frá vinstri: Björn B. Jónsson, Sigríður Sigurfinnsdóttir, Guðríður Hel…
Fræðslunefndin í góðu skjóli. Frá vinstri: Björn B. Jónsson, Sigríður Sigurfinnsdóttir, Guðríður Helgadóttir, Jón Ásgeir Jónsson, Björgvin Eggertsson, Ólafur Oddsson og Brynjar Ólafsson.

Draumurinn að koma á fót diplómanámi í skógarleiðsögn

Ólafur Oddsson, sem verið hefur fræðslu­fulltrúi Skógræktarinnar í hlutastarfi, tók um áramótin við fullu starfi fræðslustjóra stofnunarinnar. Hann stýrir fræðslunefnd með fulltrúum innan og utan Skógræktar­innar sem nú mótar nýja fræðslustefnu fyrir stofnunina.

Í samtali við vefinn skogur.is segist Ólafur hlakka til að þróa með samstarfsfólki sínu áhugaverð fræðsluverkefni fyrir ýmsa hópa sem Skógræktin tengist með margvís­leg­um hætti. Fræðslunefndin hafi það hlutverk að móta fyrstu hugmundir að áherslum og raða verkefnum í forgangsröð. Stefnt er að því að nefndin skili þeim tillögum í lok febrúar.

Í fræðslunefndinni sitja Jón Ásgeir Jónsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, Guðríður Helgadóttir og Björgvin Eggertsson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Björn B. Jónsson, verkefnisstjóri markaðsmála hjá Skóg­ræktinni, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir, skógarbóndi í Hrosshaga í Biskupstungum og Brynjar Ólafsson, kennari og doktorsnemi í list- og verkgreinanámi á menntavísindasviði HÍ. Brynjar kennir þar í smíðadeild og hefur setið í starfs­hópi um námskrá list- og verkgreina.

Ólafur segir að á döfinni sé að kanna meðal starfsfólks Skógræktarinnar hvers konar fræðslu það óskar helst fyrir sig eða aðra. Allar hugmyndir séu kærkomnar og öllum velkomið að taka þátt í að móta fræðslustefnuna.

Fræðslunefndin hefur nú hist nokkrum sinnum. Hlutverk nefndarinnar hefur verið skilgreint í grófum dráttum en fram undan er frekari úrvinnsla og flokkun hugmyndanna. Helstu hóparnir sem nefndin telur að beina þurfi fræðslunni að er starfsfólk og sjálfboðaliðar í skógrækt, kennarar og nemendur á öllum skólastigum, skógarbændur, skógræktar- og sumarhúsafólk, stjórnmálafólk og starfsfólk stofnana, starfsfólk í afþreyingar- og ferðamannaiðnaði en ekki síst al­menningur. Eftir er að skilgreina betur þessa hópa, þróa efni fyrir hvern hóp fyrir sig og vinna að námsefnisgerð.

Fræðslunni þarf ekki síður að beina inn á við til starfsfólks Skógræktarinnar, segir Ólafur. Hann nefnir einstaka hópa innan stofnunarinnar eins og ráðunautana sem þjóna skógarbændum og starfsfólk í þjóðskógunum. Með góðri fræðslu sem vekur áhuga megi vekja jákvæða athygli á skógum og skógrækt og laða fleira fólk að skógrækt og skógræktarnámi. Slíkt styðji við alla starfsemi Skógræktarinnar, skógræktarfélaga og annarra sem stunda skógrækt eða skógartengda starfsemi.



Nám í skógarleiðsögn

Framtíðardrauminn segir Ólafur vera að setja á fót diplómanám í skógarleiðsögn. Í nágrannalöndunum sé skógarleiðsögn rót­gróin grein sem geti verið atvinnu­skap­andi fyrir til dæmis skógarbændur sem vilja nýta skóginn sinn með margvíslegum hætti, fyrir kennara sem vilja nýta skóginn í störfum sínum, leiðsögumenn og fleiri. Nám í skógarleiðsögn geti verið góð viðbót við ýmiss konar annað nám. Einnig hefur Ólafur hreyft þeirri hugmynd að búa til nýja fræðsluröð fyrir skógarbændur sem gæti heitað Grænni skógar 3, þar sem komið yrði inn á leiðsögn, ferðaþjónustu, aðstöðu og búnað, skipulagningu dagskrár fyrir gesti o.s.frv.

Loks nefnir Ólafur umhverfisumræðuna og tengsl manns og náttúru. Nauðsynlegt sé að viðhalda þessum tengslum og fræða fólk um ferli náttúrunnar, til dæmis hringrásir næringarefna og kolefnis, ekki síst nú þegar að steðja loftslagsbreytingar og ráðast þarf til aðgerða gegn þeim. Nýja sýn þurfi í þessum efnum, ný áhöld og taka mið af alþjóðlegri umhverfispólitík. Skógaruppeldi sé viðurkennt viðfangsefni víða um lönd og mikilvægur þáttur í að viðhalda þekkingu fólks, virðingu kynslóðanna fyrir náttúrunni. Verði skógurinn hluti af samfélaginu og menningunni auk efnahagslífsins megi ná jafnvægi milli nýtingar og verndunar. Stefnan eigi að vera að allar nytjar séu á forsendum náttúrunnar en ekki fyrst og fremst mannsins.

Áhuginn greinilegur

Ólafur segist finna áhuga á skógartengdri fræðslu innan sem utan Skógræktarinnar. Hann hefur haldið ótal námskeið um allt land, meðal annars um ferskar viðarnytjar. Algengt sé að fólk segi eftir stutt námskeið að það hafi ekki haft trú á þessu og mögu­leikarnir ekki lokist upp fyrir þeim fyrr en á námskeiðinu. Gjarnan sé spurt að nám­skeiðum loknum hvort ekki sé hægt að fá meiri slíka fræðslu og þetta eigi við um nemendur á öllum aldri sem sótt hafa námskeiðin, frá leikskólabörnum til eldri borgara. Þörfin sé mikil fyrir skógar­námskeið í samfélaginu, bæði um grisjun og ýmsar hagnýtar skógarnytjar og um fíngerðari hluti eins og tálgun og smíði nytjahluta, allt frá því smæsta til hins stærsta.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ólafur Oddsson