Eco Park leikvangurinn verður sá fyrsti í heiminum sem stenst kröfur Sameinuðu þjóðanna um kolefnish…
Eco Park leikvangurinn verður sá fyrsti í heiminum sem stenst kröfur Sameinuðu þjóðanna um kolefnishlutleysi. Hann verður allur úr krosslímdum timbureiningum sem eru bæði sterkar, öruggar og endurvinnanlegar. Tölvugerð mynd: mir.no

Byggingaleyfi hefur verið veitt fyrir fyrsta fótboltaleikvanginum í heiminum sem reistur verður eingöngu úr timbri. Hann hefur minnsta kolefnisspor allra slíkra mannvirkja í heiminum og getur jafnvel orðið kolefnisneikvæður.

Leikvangurinn verður nýr heimavöllur enska liðsins Forest Green Rovers Football Club sem er í þorpinu Nailswort í Suðvestur-Englandi. Liðið keppir nú í League 2 í enska boltanum sem er þriðja eða neðsta deildin í enska atvinnumannaboltanum.

Um hönnun leikvangsins sáu arkitektar og verkfræðingar hjá Zaha Hadid Architects í Lundúnum.  Stefna Forest Green Rovers er að  vera grænasta fótboltafélag í heiminum. Sjálfbærni er leiðarljósið í öllum rekstri félagsins. Á nýja leikvanginum verða sólarsellur sem búa til rafmagnið, hleðslustöðvar verða fyrir rafbíla á bílastæðunum og í veitingasölunni  verður eingöngu seldur grænkeramatur. Í þessum anda er nýi leikvangurinn hannaður, fyrsti fótboltaleikvangurinn í heiminum sem eingöngu verður gerður úr timbri.

Tölvugerð mynd: negativ.comLeikvangurinn kallast Eco Park Stadium. Hönnuðirnir hjá Zaha Hadid Architects unnu verðlaunasamkeppni um hönnun á vistvænum leikvangi á þessum stað árið 2016 en svo rákust menn á veggi þegar leitast var eftir byggingaleyfi. Það snerist ekki um timbrið heldur áhrif leikvangsins á hljóðvist, umferð og umhverfið. Þá var ráðist í endurhönnun og ýmsu breytt sem snerti landnýtingu, lagfæringar á aðkomuleiðum fólks á keppnisdögum og nú er líka gert ráð fyrir dúki yfir leikvanginn sem hleypir í gegnum sig ljósi. Lagfæringarnar urðu til þess að nú hefur byggingaleyfi verið veitt eins og fram kemur í umfjöllun hönnunartímaritanna The Architect’s Newspaper og Archinect

Sjálfur timburleikvangurinn verður þungamiðjan í enn stærra verkefni sem áætlað er að kosti sem nemur fimmtán milljörðum íslenskra króna. Verkefnið kallast „Eco Park“ og undir það hafa verið teknir um fjörutíu hektarar lands. Svæðið verður helgað íþróttum og grænni tækni. Á fótboltaleikvanginum verða 5.000 sæti en þar fyrir utan verða æfingasvæði, bæði með lifandi grasi, gervigrasi og öðru undirlagi sem hæfir mismunandi notkun og árstíðum. Þar verður líka fjölbreytt aðstaða opin fyrir almenning ásamt miðstöð um íþróttavísindi en einnig húsnæði sem hýsa mun skrifstofur og verslanir.

Nánast allt að innan og utan verður gert úr timbri. Tölvugerð mynd: negativ.comFram kemur á vef Zaha Hadid Architects að næstum allir byggingahlutar leikvangsins verði gerðir úr timbri úr sjálfbærri ræktun, hvort sem það er burðarvirkið, þakbitar, klæðning eða annað. Notaðar verða krosslímdar einingar sem eru ákaflega traust byggingarefni auk þess að vera öryggt, endurnýtanlegt, endurvinnanlegt og líka fallegt, ef rétt er með farið.

Hönnuðirnir halda því fram að leikvangurinn geti jafnvel orðið kolefnisneikvæður, með öðrum orðum að bygging hans og rekstur geti leitt til bindingar kolefnis frekar en losunar. Bæði er mjög mikið kolefnið bundið til langs tíma í timbrinu sem notað er í mannvirkið og svo verður orkan sem þar verður notuð framleidd á staðnum. Hún getur því leyst af hólmi orku sem framleidd er með mengandi aðferðum annars staðar. Þar fyrir utan eru bitarnir í burðarvirki leikvangsins svo nærri hver öðrum að ekki þarf að notast við stál eða steinsteypu í gólf og undirstöður sætanna heldur dugar timbur í það líka.

Áhorfendabekkirnir eru þannig hannaðir að áhorfendur sem næst sitja verða ekki nema í um fimm til sex metra fjarlægð frá fótboltavellinum sjálfum. Hvergi verða súlur eða bitar sem skyggja á sjónlínu áhorfenda að vellinum og meira að segja er gert ráð fyrir mögulegum framgangi heimaliðsins í enska boltanum því hægt verður að bæta öðrum 5.000 sætum við síðar ef þörf verður á án þess að ráðast þurfi í verulegar viðbyggingar.

 

Tölvugerð mynd af væntanlegum leikvangi: mir.noÞetta óvenjulega mannvirki er hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum og markar spennandi upphaf að nýjum tímum í hönnun og smíði íþróttaleikvanga. Það sýnir líka hversu sveigjanleg og aðlaðandi sjálfbær byggingatækni og hönnun getur verið. Á vef Zaha Hadid Architects er haft eftir Dale Vince, stjórnarformanni Forest Green Rovers og eiganda græna orkufyrirtækisins Ecotricity að mikilvægi timburs sé ekki eingöngu fólgið í því að það sé sótt í náttúrlega og sjálfbæra auðlind heldur sé kolefnisspor þess um það bil eins lítið og mögulegt er. Þegar haft sé í huga að um þrír fjórðu af kolefnisspori íþróttaleikvanga má rekja til byggingarefnanna sé augljóst hversu mikilvægt er að nota slíkt byggingarefni sem timbur er. Þess vegna muni þessi nýi leikvangur hafa minnsta kolefnisspor allra íþróttaleikvanga í heiminum.

Ekki kemur fram hvenær nú sé áætlað að leikvangurinn verði tilbúinn til notkunar en áður en til tafanna kom við afgreiðslu byggingaleyfisins var stefnt að því að félagið gæti tekið á móti andstæðingum sínum á vellinum á leiktíðinni 2023-2024. En nú virðist í það minnsta stefna í að verkefnið verði að veruleika.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson