Þrír þátttakendur á námskeiði í húsgagnagerð hjá LBHÍ og Skógrækt ríkisins voru teknir tali. Sem fyrr var námskeiðið fullbókað, þátttakendur komu úr ýmsum greinum og víða að af landinu: kennarar, skógarbændur, húsasmiðir, húsgagnasmiðir og aðrir áhugasamir.


18032013-(4)Geir Hilmar Oddgeirsson, smiður Litlabæ í Vogum

Af hverju komstu á námskeiðið?
Ég hef  lengi haft áhuga á skógrækt og þótti fróðlegt að sjá hvað hægt er að nýta úr íslensku skógarefni. Það er mikill áhugi á nytjahlutum úr íslensku efni en mér hefur reynst erfitt að fá upplýsingar um efnisúrval og hvar er þeirra helst að leita. Mig langaði að kynnast handverkstækninni við að smíðar úr efni beint  úr skóginum. Það er gaman að kynnast fjölbreyttum aðferðum, sérstaklega þeim sem ekki eru notaðar í hefðbundinni smíði. Námskeiðið var fróðlegt og skemtilegt og gaman að kynnast bæði þátttakendum og leiðbeinendum.

Gripi eftir Geir Hilmar má sjá til hægri hér að ofan.


18032013-(2)Andrea Mueller, bóndi Blöndudalshólum í Húnavatnssýslu


Af hverju komstu á námskeiðið?
Undanfarin ár hef ég farið á Handverkshátíðina í Hrafnagili og séð þar marga fallega og áhugaverða hluti smíðaða úr timbri. Þegar ég sá þetta námskeið auglýst hugsaði ég með mér að nú væri tækifæri fyrir mig að prófa sjálf.

Hvað fannst þér þú læra?
Ég lærði að nota verkfærin rétt og að hirða rétt um þau. Ég lærði mikið um efniviðinn sem við notuðum, t.d. hvaða viður hentar best í það sem maður ætlar að smíða og hvort er betra að vinna hann blautan eða þurran. Einnig sá ég hversu margt er í raun hægt að smíða úr skógarefni.

Hvað fannst þér skemmtilegast?
Mér fannst hópurinn sem var á þessu námskeiði frábær og kennararnir skemmtilegir. Þá fannst mér gaman að fá frjálsar hendur að hanna eitthvað sjálf. Mér fannst líka áhugavert og skemmtilegt að finna hina mismunandi lykt af hinum ýmsu viðartegundum.

Hvernig heldur þú að þessi reynsla nýtist þér?
Ég reyni að halda áfram að smíða. Það má alltaf bæta við húsgögnum á heimilið og í garðinn. Ég vona að það verði boðið upp á framhaldsnámskeið.


18032013-(3)Bjarni Gunnarsson, kokkur hjá Marel


Af hverju komstu á námskeiðið?
Ég var forvitinn að sjá hvað hægt er að nýta úr nátturunni til húsgagnagerðar. Mig langaði að prufa þetta námskeið og athuga hvort þetta væri fyrir mig og breyta aðeins til þar sem ég er kokkur. Mér fannst þetta virkilega skemmtileg tilbreyting.

Hvað fannst þér þú læra?
Hvernig ég átti að beita verkfærunum og hvaða áhöld ég þurfti fyrir þessa iðju.

Hvað fannst þér skemmtilegast?
vinna við að smíða bekkinn og kollinn. Fyrirlestrarnir voru hressandi líka. Maður gat alveg gleymt sér í þessu og þetta var svo gefandi, að gera eitthvað með sjálfur með höndunum. 

Hvernig heldur þú að þessi reynsla nýtist þér?
Þetta mun nýtast mér til að búa til ýmislegt skemmtilegt úr náttúrunni og jafnvel að miðla reynlunni áfram og líka að hafa eitthvað skemmtilegt til dundurs.

Muntu hvetja aðra til að sækja slíkt námskeið?
Já, ég myndi benda þeim sem ég held að myndu hafa áhuga þessu á námskeiðið. Svo mætti vera framhald af þessu námskeiði.
Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi