Íslenskur einir í skógi (Juniperus communis). Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir
Íslenskur einir í skógi (Juniperus communis). Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Haldið í 9. sinn 9. október

Umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til IX. Umhverfisþings á Grand Hótel í Reykjavík föstudaginn 9. október 2015. Skráning stendur til 6. október. Susan Davies, forstjóri Scottish Natural Heritage, verður heiðursgestur þingsins. Tvær málstofur verða haldnar, önnur um ferðamennsku í náttúru Íslands og hin um friðlýst svæði.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, setur þingið kl. 9 og því næst flytur heiðursgesturinn, Susan Davies, ávarp sitt og svarar fyrirspurnum úr sal. Að því búnu kynna nemendur grunnskólanna á Hellu, Hvolsvelli og Þjórsárskóla vistheimtarverkefni. Inngangserindi á þinginu flytja þeir Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, sem spyr hvers virði náttúran sé, og Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann flytur hugleiðingu um villta náttúru og ferðamenn, hvort þar sé samleið.

Eftir hádegi verða svo haldnar tvær málstofur.

Yfirskrift málstofu A er Ferðamennska í náttúru Íslands - ógn eða tækifæri í náttúruvernd? Þar verður rætt um almannarétt, þolmörk ferðamannastaða, friðlýsingar, jarðminjar, ferðamannavegi, hlutverk leiðsögumanna og bændur í sátt við náttúru og ferðamenn.

Yfirskrift málstofu B er Friðlýst svæði - vernd, skipulag, rekstur og fjármögnun. Þar verður farið yfir strauma og stefnur í rekstri þjóðgarða og friðlýstra svæða, fjallað um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, þýðingu þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, sagt frá stefnumótun um þjóðgarðinn á Þingvöllum, friðun Teigarhorns, Hornstrandafriðlandinu og rætt um landnýtingu í sátt við náttúruna. Almennar umræður verða í báðum málstofunum að loknum erindum.

Umhverfisþing er öllum opið meðan húsrúm leyfir. Alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga og fulltrúum atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka sem hafa umhverfisvernd og sjálfbæra þróun á stefnuskrá sinni er lögum samkvæmt sérstaklega boðið til þingsins

Þing þetta er haldið skv. ákvæðum náttúruverndarlaga. Þar segir að ráðherra skuli boða til Umhverfisþings að loknum hverjum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar. Skv. ákvæðum laga mun þingið að þessu sinni fjalla um umhverfis- og náttúruvernd.