Hugmynd um fjórföldun kynnt þingmönnum og ráðherra á degi skóga

Hlutfallslega binda íslenskir skógar álíka mikið af losun landsmanna og skógar Sviss, Austurríkis, Þýska­lands og Tékklands binda af losun þessara landa. Stærstur hluti þess­arar bindingar hérlendis verður í skóg­um sem ræktaðir hafa verið frá árinu 1990. Þetta sýnir hversu mikl­um árangri má ná á fremur stuttum tíma.

Samkvæmt raungögnum úr íslenskri skógarúttekt binda íslenskir skógar 6,4% af árlegri heildarlosun Íslands af gróðurhúsalofttegundum (333 þús. tonn CO2 af 5,2 m tonnum CO2). Stærstur hluti þeirrar bindingar er í ungum, „Kyoto-skógum“, skógum sem ræktaðir hafa verið eftir árið 1990.

Þetta hlýtur að teljast allgóður árangur íslenskra skóga í loftslagsmálum, þegar tillit er tekið til þess hve lítil áhersla hefur verið lögð á þessa loftslagsaðgerð af hálfu íslenskra stjórnvalda, eða á mótvægis­aðgerðir í loftslagsmálum almennt.

Binding gróðurhúsalofttegunda í evrópskum skógum (prósentuhlutfall af losun).

Þessi árangur telst ekki síður góður í evrópskum samanburði. Íslenskir skógar binda hlutfallslega jafnmikið af CO2-losun okkar og skógarnir í Sviss, Austurríki, Þýskalandi og Tékklandi. Og meira en skógar Bretlands, Grikklands og Hollands – svo ekki sé minnst á „lille Danmark“. Danir virðast sam­kvæmt þessum gögnum vera að nema á brott meira kolefni úr skógum sínum en binst árlega.

En auðvitað stöndum við í þessum efnum langt að baki frændþjóðum á borð við Norðmenn eða Svía. Norskir skógar binda á hverju ári 52% af losun Norðmanna og 59% bindast í skógum Finn­lands. Í Svíþjóð er þetta hlutfall 83%. Hjá Svíum vantar því aðeins 17% upp á að þeir verði „kolefnishlutlausir“ eins og þar er að stefnt.

Ef Íslendingar myndu á allra næstu árum fjórfalda árlega nýskógrækt á Íslandi frá því sem nú er, næð­um við um miðbik aldarinnar að fanga 1,2 milljónir tonna CO2, eða tæplega fjórðung af nú­ver­andi losun. Ef sú binding yrði að stórum hluta í nytjaskógum, myndi Ísland um líkt leyti verða orðið sjálfu sér nægt um skógarafurðir. Losun CO2 vegna skipaflutninga á timbri til landsins myndi heyra sögunni til. Hundruð nýrra atvinnutækifæra myndu skapast, einkum í dreifbýli.

Texti: Aðalsteinn Sigurgeirsson og Pétur Halldórsson


Skógar og sjálfbært þéttbýli - Alþjóðlegur dagur skóga 2018