Nytjaskógur í Rúmeníu. Þarna vex rauðgreni og evrópuþinur, að mestu af sjálfu sér upp af fræi. Aðein…
Nytjaskógur í Rúmeníu. Þarna vex rauðgreni og evrópuþinur, að mestu af sjálfu sér upp af fræi. Aðeins er gróðursett í bletti sem skógurinn nær ekki sjálfur að sá sér í eftir rjóðurfellingu. Hér sést ungviði evrópuþinsins sem bíður þess að vaxa upp þegar eldri tré falla eða eru felld.

Hlutverk þeirra í öndvegi á næsta ráðherrafundi Forest Europe

Í Evrópu vex fjórðungur allra skóga á jörðinni eða 25%. Þetta er merkilegt og undirstrikar þýðingu evrópskra skóga fyrir allan heiminn en sýnir okkur líka að skógarmálefnunum þarf að skipa ofarlega á forgangslista stjórnmálanna ásamt þeim alheimsvandamálum sem tengjast skógum, málefnum sem snerta loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun. Og nú er rétti tíminn til athafna eins og segir í nýrri frétt á vef Forest Europe.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að sérstök áhersla var lögð á hlutverk evrópskra skóga í heiminum á sérfræðingafundi (Expert Level Meeting, ELM) sem haldinn var 20.-22. janúar  í borginni Santiago de Compostela á Spáni. Um leið var minnst aldarfjórðungs afmælis þessa samstarfs sem kallað er Forest Europe, tíundaður sá árangur sem náðst hefur og málefnin sem rædd verða á sjöunda ráðherrafundi samstarfsins.

Árið  2015 markar tímamót um alþjóðlegt samstarf og stefnu í skógarmálum. Mikilvægir vegvísar verða settir upp sem hafa munu veruleg áhrif á stefnumörkunina. Þar á meðal má nefna  21. fund aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC COP21) sem haldinn verður í París í desember og samantekt markmiða um sjálfbæra þróun fyrir það samkomulag sem á að gilda eftir árið 2015. Einnig verður á árinu haldinn tólfti fundur aðildarríkjanna að samningnum um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD COP12) og endurskoðun alþjóðasáttmála um skóga (International Agreement on Forests) á ellefta þingi skógasamráðs Sameinuðu þjóðanna (UNFF11).

Á sérfræðingafundinum í síðustu viku hittust fulltrúar frá ríkjunum 28 sem taka þátt í samstarfinu Forest Europe ásamt fulltrúm frá Evrópusambandinu og níu áheyrnarsamtökum. Eining var um það á fundinum að á næsta ráðherrafundi Forest Europe sem haldinn verður í október í Madríd á Spáni gæfist einstakt tækifæri til að mynda tengsl við önnur öfl sem eiga þátt í að marka stefnu um skógarmál en einnig að vekja athygli á mikilvægi evrópskra skóga fyrir allan heiminn.

Þegar rætt var um hvaða málefni skyldu borin upp á væntanlegum ráðherrafundi var einkum stuðst við niðurstöður hringborðsfundar Forest Europe sem haldinn var 4.-5. nóvember síðastliðinn í Cuenca á Spáni Spain, en einnig nýjustu ávexti vinnuáætlunar Forest Europe. Sömuleiðis var tekið á málefnum sem nú eru efst á baugi í alþjóðlegu samstarfi og hafa áhrif á skógargeirann og höfð var hliðsjón af þeim nýmælum sem fulltrúarnir á sérfræðingafundinum í Santiago de Compostela höfðu fram að færa. Umræður þar báru ríkulegan ávöxt og ýmis málefni sem upp komu á fundinum hafa verið valin til umfjöllunar á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe. Verndun skóga á tímum umhverfisbreytinga er þar á meðal og vísar til þess hversu mikilvægt er að skógar séu meðhöndlaðir á sjálfbæran hátt og að tekið sé á þeim nýju úrlausnarefnum sem blasa við í evrópskum skógum á þessum hverfulu tímum.

Græn störf og samfélagsleg áhrif skógargeirans voru líka málefni sem ákveðið var að bera upp á ráðherrafundinum enda nauðsynlegt að renna stoðum undir samkeppnishæfni greinarinnar og nýta sem best þá möguleika sem þar felast til að skapa störf og tekjur.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson


.