Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Tvær doktorsnemastöður og sex meistaraverkefni standa til boða í tengslum við samstarfsverkefnið BirkiVist sem snýst um endurheimt birkivistkerfa á 21. öld. Skógræktin er meðal stofnana sem að verkefninu standa.

BirkiVist er stytting á yfirheiti verkefnisins Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld - áskoranir leiðir og ávinningur. Fjölbreytt og þverfagleg doktors- og meistaraverkefni við rannsóknir tengdar endurheimt birkiskóga eru nú í boði innan verkefnisins sem unnið er fyrir styrk úr markáætlun um samfélagslegar áskoranir. Að verkefninu standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan, Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, og Skógræktin í samstarfi við fleiri stofnanir, sprotafyrirtæki og aðra aðila á sviði landgræðslumála.

Í boði eru tvær doktorsnemastöður (36 mánaða laun hvor) við deild náttúru og skóga við LbhÍ og sex meistaraverkefni (5-10 mánaða laun) við LbhÍ og líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Doktorsverkefnin snúa að rannsóknum á annars vegar landnámi og útbreiðslu birkis, ásamt gerð líkana fyrir hraða og mynstur birkilandnáms, og hins vegar á þeim breytingum er verða á vatnsbúskap, kolefnisforða og ýmsum öðrum jarðvegsþáttum við það að birkiskógur vex upp á skóglausu landi. Meistaraverkefnin eru fjölbreytt og ná yfir vistfræði, landslagsrannsóknir, greiningu á líffræðilegri fjölbreytni, stefnumótun, umgjörð og stýringu eða umsjón með endurhæfingu vistkerfa. Nánari lýsingu á verkefnunum er að finna á vef Landbúnaðarháskóla Íslands.

Umsóknir sendar fyrir 25. mars hafa forgang

Æskilegt er að umsóknir berist sem fyrst. Umsóknir sem berast fyrir 25. mars nk. hafa forgang, en tekið verður áfram við umsóknum þar til nemendur hafa fengist í öll verkefnin. Miðað er við að nemendur byrji ekki síðar en í júní 2021.

Umsækjendur um doktorsnemastöður skulu hafa lokið meistaraprófi í landgræðslufræðum, vistfræði, umhverfisfræði, líffræði eða skyldum greinum. Umsækjendur um meistaraverkefnin skulu hafa lokið BS- eða BA- námi á viðeigandi sviði.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson