Finnski olíujöfurinn Mika Anttonen segir að ódýrasta og áhrifaríkasta leiðin til að ná kolefni úr lo…
Finnski olíujöfurinn Mika Anttonen segir að ódýrasta og áhrifaríkasta leiðin til að ná kolefni úr lofthjúpnum sé að rækta skóg. Hann vill græða Sahara-auðnina upp með skógi og ökrum. Mynd: Erkki Oksanen

Vill klæða Sahara-auðnina skógi

Er virkilega hægt að klæða eyðimerkur skógi? Mika Anttonen, stjórnarformaður orkufyrirtækisins St1, hefur hugmyndina, fjármagnið og áræðið sem til þarf. Hann hyggst lækna lungu jarðarinnar.

„Við verðum að losa okkur við kolefnisskuldir okkar og tryggja að skuldirnar vaxi ekki framar,“ segir hann í frétt sem birtist á vef Metsäyhdistys, finnska skógasambandsins. Anttonen minnir á að aldrei hafi verið meiri koltvísýringur í lofthjúpnum og á þá væntanlega við sögulegan tíma.

Mika Anttonen er stofnandi og aðaleigandi finnska orkufyrirtækisins St1. Fyrirtækið selur hefðbundið eldsneyti en leggur mikla áherslu á orkugjafa framtíðarinnar, rekur lífetanólverksmiðjur í Finnlandi, vinnur að djúpborunarverkefnum til að gera Finnum kleift að nýta jarðhita og fleira. Anttonen segir að einungis sé til ein öflug aðferð til að fjarlægja koltvísýring úr lofthjúpnum, að rækta ljóstillífandi gróður á borð við tré. Þess vegna vill hann rækta skóg í Sahara-auðninni.

Hluta þess lands í Sahara sem Anttonen vill rækta upp hyggst hann nýta til akuryrkju. Verkefnið myndi því ekki aðeins stuðla að því að bjarga heiminum frá hlýnandi loftslagi heldur einnig bæta lífsskilyrði og framtíðarhorfur fólks í Afríku norðanverðri.

„Ávinningurinn yrði ekki minnstur fyrir loftslagsflóttamennina, fólkið sem nú flýr hlýnandi loftslag,“ sagði Anttonen í ræðu sem hann hélt í gær í tengslum við árlega skógardaga sem fram fara í Helsinki á vegum finnska skógasambandsins Metsäyhdistys.

Anttonen setur markið á uppgræðslu 85 prósenta Sahara-auðnarinnar jafnvel þótt hann virðist augljóslega ekki sjálfur fyllilega sannfærður um að það sé hægt. Hann bendir þó á að metnaðarfull markmið hafi tilhneigingu til að koma hlutunum á hreyfingu.

Skóggræðsluverkefni í eyðimörkum Ísraels

Tæknin til skóggræðslu er fyrir hendi

„Hvað gerðist í finnska skógariðnaðinum þegar upphófust raddir sem kröfðust þess frárennsli iðjuvera timburiðnaðarins yrði hreinsað?“ spurði Anttonen um það bil 500 tilheyrendur sína á fyrirlestrinum í Helsinki, fagfólk í skógargeiranum. „Ég er hræddur um að þá hafi sumir rekið upp ramakvein og spáð endalokum finnska skógariðnaðarins,“ sagði hann til að svara eigin spurningu.

En bíðum nú við. Rannsóknum og þekkingu fleygði fram. Frárennsli verksmiðjanna var hreinsað og pappírsverksmiðjurnar urðu bara öflugri. „Við getum leyst þessi vandamál ef við bara köllum verkfræðingana til verka,“ sagði Anttonen við góðar undirtektir áheyrenda.

St1 vinnur nú að rannsóknum á möguleikum skóggræðslu í Marokkó. Tæknin sem til þarf er fyrir hendi og byggist á því að vinna og nýta sjó og affallsvatn til áveitu með hjálp sólarorku. Í Kína safnar fyrirtækið úrgangsolíu frá veitingastöðum og vinnur úr henni lífdíselolíu sem flutt er á markað í Svíþjóð. Einingaverðið á þeim loftslagsávinningi sem framleiðslunni fylgir er það sama og væri af skóggræðsluverkefnum í Sahara.

Anttonen biðlar til stjórnvalda að þau vegi og meti hvort sé skynsamlegra, að flytja olíu milli heimshluta eða rækta nýjan skóg. Á móti gerir hann kröfu um að fá losunarheimildir á móti þeim fjárfestingum sem hann leggur í til bjargar loftslaginu. Því jafnvel þótt St1 vinni að hluta til að verkefnum sem snerta endurnýjanlega orku felst meginstarfsemi fyrirtækisins í vinnslu og dreifingu jarðefnaeldsneytis. St1 rekur meira en 1.400 bensínstöðvar á Norðurlöndunum.

Regreening the Planet
Fræðslumynd sem sýnir hvernig hægt er að breyta eyðimörkum í gjöfult og frjósamt gróið land.

Climate problems can only be solved globally

Eftir því sem Anttonen segir geta rafbílar aðeins dregið lítillega úr notkun jarðarbúa á jarðefnaeldsneyti. Með þeirri rafhlöðutækni sem nú er við lýði sé í raun ekki hægt að geyma mikla orku. Almennt sé tilgangslaust að einblína á bíla þegar rætt sé um að bjarga loftslaginu vegna þess að einungis lítið brot af hráolíunni sé nýtt til framleiðslu á bifreiðaeldsneyti. Á meðan þörf sé fyrir olíufafurðir á borð við steinolíu fyrir flugvélar, bensín og ýmislegt fleira muni olíuvinnsla halda áfram. Hér talar vel að merkja fulltrúi úr olíuiðnaðinum en hann rökstyður mál sitt:

„Að hætta að nota bensín væri nokkurn veginn eins og ef við ætluðum að vernda skóga með því einu að nota átta innstu árhringina úr hverju tré,“ segir Anttonen. Samt sem áður vill hann setja skorður við notkun jarðefnaeldsneytis. Og hann vill líka láta framleiðendur olíu, kola og gass borga kostnaðinn við að bjarga loftslaginu og rækta nýja skóga. Hann hvetur stjórnvöld til að þróa kolefnishlutlaust hagkerfi um allan heim því staðbundin verkefni hafi lítil áhrif önnur en þau að breyta því hvernig fólk hugsar og kýs.

„Að rækta skóg er án vafa ódýrasta og öflugasta leiðin til að binda kolefni úr andrúmsloftinu. Við höfum tækin sem til þarf og það eina sem vantar er regluverkið. Svo nú skulum við bara byrja að rækta,“ segir Mika Anttonen, stjórnarformaður og aðaleigandi olíufyrirtækisins St1.

If the Sara was green - energy sector executive plans to save the planet by afforestation

Íslendingar eiga tugi þúsunda hektara lands sem eru ekkert annað en eyðimerkur. Þessar eyðimerkur má græða upp og gera að gjöfulu landi. Einn ávinningur þess er binding koltvísýrings. Annar ávinningur er atvinna fyrir fólk. Þriðji ávinningurinn er auðlind fyrir afkomendur okkar. Fjórði ávinningurinn er félagslegur og landið verður byggilegra fyrir fleira fólk.

Afforesting Iceland - a cause for optimism

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson