Dagsetning sem allt íslenskt skógræktarfólk þekkir vel er 9. apríl 1963. Þann dag gekk snarpt hret yfir landið og lækkaði hitastig víða um land úr u.þ.b. 7° allt niður í -12° á innan við sólarhring. Vandamálið var þó sérstaklega það að bæði febrúar og mars höfðu verið mjög hlýir, flestar trjátegundir búnar að missa frostþol og sumar byrjaðar að vaxa. „Þegar líða tók á vorið fóru skemmdir af völdum hretsins að koma í ljós og reyndust þær víða miklar“ skrifaði Hákon Bjarnason skógræktarstjóri í grein í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1964.

Frægt varð að alaskaaspirnar í Múlakoti í Fljótshlíð, þær elstu á landinu og þá komnar í 11 m hæð, kólu niður í rót. Þá voru einnig hafnar fyrstu tilraunir með skjólbelti í lágsveitum sunnanlands og þar notaður þingvíðir. Hann kól einnig niður í rót. Hákon greinir frá því að skemmdir hafi einnig verið miklar á hvítgreni, blágreni, broddgreni, fjallaþin og síberíulerki á Suðurlandi og Austfjörðum. Skemmdir urðu mun minni á norðanverðu landinu.

Skemmdir á sitkagreni voru teknar út sérstaklega á Suður- og Vesturlandi, enda batt Hákon miklar vonir við þá tegund sem helsta framtíðartré í íslenskri skógrækt. Þótt skemmdir hafi verið umtalsverðar voru dauðsföll ekki mikil nema á tiltölulega fáum stöðum. Meiri dauðsföll en 50% mældust einungis í Mýrdal og undir Eyjafjöllum og á skjólgóðum stöðum svo sem undir klettaveggjum í Múlakoti og Hamrinum við Hveragerði og tveimur stöðum í Kjós. Annars staðar voru afföll mun minni.

Afleiðingar aprílhretsins voru mjög miklar fyrir skógrækt á Íslandi, ekki síst af því að viðbrögð manna voru í raun harkalegri en hretið sjálft. Menn hættu allveg að nota þingvíði og mjög dró úr gróðursetningu sitkagrenis. Reyndar dró mjög úr gróðursetningu í heild, þ.e. úr 1,5 milljónum plantna árlega í um 0,5 milljónir, en einnig má þar kenna furulúsinni um sem þá var að ganga af skógarfurunni dauðri. Gróðursetning jókst ekki á ný fyrr en tæpum 30 árum seinna. Álíka langur tími leið þar til farið var að nota alaskaösp í skógrækt, þótt garðeigendur hafi verið mun fljótari að taka hana í sátt. Jákvæð útkoma aprílhretsins var að meiri áhersla var lögð rannsóknir og fjórum árum seinna var rannsóknastöð Skógræktar ríkisins reist á Mógilsá.

Nú eru liðin 50 ár og e.t.v. við hæfi að leggja mat á afleiðingar hretsins. Það er ljóst að afleðingarnar fyrir trén sjálf voru ekki eins alvarlegar til lengri tíma litið eins og leit út í fyrstu. Aspirnar endurnýjuðu sig með teinungi og eru þær í Múlakoti nú meðal hæstu trjáa landsins. Sitkagreniskógar sem gengu í gegnum hretið eru nú að skila tugum milljóna króna árlega í tekjur af sölu grisjunarviðar. Aðrar tegundir náðu sér einnig á strik. Myndarlegir skógar vaxa nú á stöðunum sem urðu verst úti í hretinu, t.d. að Skógum undir Eyjafjöllum.

Verstu afleiðingar hretsins voru þær að skógræktarfólk missti sjálfstraustið. Í stað þess að halda áfram að gróðursetja af krafti hikuðu menn við og það í tæp 30 ár. Ný kynslóð skógræktarfólks þurfti í raun að koma til áður en hægt var að hefjast handa á ný. Helsti lærdómur sem draga má af aprílhretinu 1963 er að skógar þola svona áföll betur en fólk. Því á skógræktarfólk ekki að missa móðinn þó á móti blási.


Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna