Úr Eyjafjarðarsveit
Úr Eyjafjarðarsveit

Bændur áhugasamir um aukna skógrækt, telur oddvitinn

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar sem haldinn var 8. febrúar var samþykkt að kanna skyldi möguleika á að sveitarfélagið yrði kolefnisjafnað og tekið upp kolefnis­bókhald.

Eyjafjarðarsveit er blómlegt landbúnaðar­hérað og meðal annars er þar víða stunduð skógrækt á lögbýlum. Skógarþekja í innan­verðum Eyjafirði að Akureyri meðtalinni nálgast nú þau fimm prósent sem markið var sett á með landshlutaverkefnum í skógrækt á sínum tíma.

Í frétt á vef sveitarfélagsins er haft eftir Jóni Stefánssyni oddvita að lengi hafi verið mikil umræða um losun kolefnis frá landbúnaðar­starfsemi og sú umræða hafi verið heldur neikvæð í garð bænda. Hann telji ekki augljóst að allir horfi á heildarmyndina í því samhengi. Bændur séu víða mjög atkvæðamiklir skógræktendur og margir hafi gróðursett mikið á jörðum sínum samhliða öðrum búrekstri án þess að landsmenn hafi veitt því sérstaka athygli.

Jón telur að bændur og landeigendur í Eyjafjarðarsveit hafi síst legið á liði sínu við skógrækt og uppgræðslu lands og margir hafi áhuga á að ráðstafa stórum svæðum á jörðum sínum til frekari skógræktar. Landbúnaður sé blómlegur og umfangsmikill í Eyjafjarðarsveit og því fylgi nokkur losun kolefnis en bændur og aðrir íbúar sveitarfélagsins séu al­mennt framsæknir í umhverfismálum og vilji vera í fremstu víglínu á þeim vettvangi. „Við ætlum því að reyna að kort­leggja kolefnisfótspor Eyjafjarðarsveitar og kanna hvort raunhæft sé að Eyjafjarðarsveit geti orðið kolefnishlutlaust sveitarfélag í náinni framtíð,“ segir Jón stefánsson, oddviti Eyjafjarðarsveitar, orðrétt á vef sveitarfélagsins.

Fyrir nokkrum árum var gerð úttekt á losun gróðurhúsalofttegunda í Fljótsdalshreppi og þar kom í ljós að bindingin í skógum bænda var meiri en losunin frá landbúnaði og öðrum mannlegum athöfnum í hreppnum. Á Akureyri er unnið að ýmsum verkefnum undir forystu Vistorku með því markmiði að samfélagið verði kolefnishlutlaust. Samþykkt sveitar­stjórnar Eyjafjarðarsveitar bendir líka til þess að áhugi sé að aukast á kolefnisjöfnun hérlendis.

Andi baráttunnar gegn loftslagsbreytingum í heiminum er sá að allir þurfi að taka til í eigin ranni. Þessi andi kom skýrt í ljós í Parísar­samkomulaginu þar sem þjóðum heims var treyst til að setja sér eigin markmið og sjá til þess að þeim markmiðum yrði náð. Ástæða er til að hvetja öll sveitarfélög á Íslandi til þess að stefna að kolefnishlutleysi. Draga þarf úr losun eins hratt og mögulegt er en kolefnisbinding með skógrækt hlýtur einnig að verða eitt af þeim ráðum sem gripið verður til, ekki síst í sveitarfélögum þar sem nægt land er til ráðstöfunar.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson