Síðustu vikur hefur mikið borið á ertuyglu í lúpínubreiðum. Er þetta með verri plágum af ertuyglu, en tegundin hefur verið töluvert áberandi síðustu ár í sunnlenskum lúpínubreiðum.

Etur lirfa yglunnar blóm af ertuætt, t.d. lúpínu, umfeðming eða giljaflækju og leggst svo á annan gróður þegar ertublómin eru uppétin. Þar sem hvað mest hefur verið af yglunni síðustu ár virðist lúpínan vera horfin og gras eða trjágróður kominn í staðinn. Ef mikið er af yglunni byrjar hún að háma í sig lauf eða nálar trjágróðurs. Undanfarin ár hefur yglan þó komið það seint að sumri að trjágróður hefur verið farinn að mynda brum og skaðinn þá orðið minni. Hafa tré þá laufgast eðlilega sumarið eftir. Í ár er kvikindið þó heldur fyrr á ferðinni og í meira magni en áður vegna sérlega mikilla hlýinda í sumar. Hefur fók því meiri áhyggjur af þessum skaðvaldi en undanfarin ár.

Ekki er hægt að segja neitt um áhrif plágunnar á trjágróður fyrr en hausta tekur og yglurnar eru lagstar í vetrardvala.

Meðfyljandi myndir tók Hreinn Óskarsson í Þjórsárdal á dögunum sem sýnir hversu mikill fjöldi er af yglu þetta árið.