Verkefni sem miðar að því að hindra útrýmingu náttúrlegra tekkskóga

Á síðasta ári var haldin heimsráðstefna um tekk í Bangkok á Taílandi. Þar var ákveðið að hrinda af stað verndaráætlun í þeim löndum þar sem tekkið er upprunnið ef hindra mætti að náttúrlegir tekkskógar hyrfu með öllu. Vinnufundur var svo haldinn í vor til að móta drög að verndaráætlun. Meðal markmiða verkefnisins er að varðveita erfðaauðlind tekktrjánna.

Náttúrlegir tekkskógar eru taldir vaxa á um 29 milljónum hektara á Indlandi, í Laos, Míanmar og á Taílandi. Mikil ásókn er í að nýta gamla skóga sem geta gefið af sér hágæðatekk og stöðug hætta er á að slíkir skógar séu ofnýttir eða þeir séu látnir víkja fyrir annars konar landnotkun. En tekk er líka ræktað í nytjaskógum. Þar hafa menn hins vegar áhyggjur af því að við ræktunina sé aðeins notað erfðaefni af takmörkuðum fjölda klóna,  kvæma eða blendinga. Því sé nauðsynlegt að skipuleggja og koma í verk alþjóðlegri áætlun um varðveislu erfðaefnis af tekktrjám víðs vegar af útbreiðslusvæði þess og breikka það úrval sem erfðaefni er tekið úr til ræktunar á tekki. Þetta sé líka nauðsynlegt að gera svo betur sé hægt að takast á við þau vandamál sem fylgja loftslagsbreytingum og auknum öfgum í veðurfari.

Í þessu samhengi var skipulagður vinnufundur á vegum ýmissa sem málið varðar. Þar er á ferðinni verkefni sem kallast  á ensku Plant Genetic Conservation Project og er undir verndarvæng RSPG, stofnunar á vegum taílensku prinsessunnar Haha Chakri Sirindhorn. Með í verkefninu er IUFRO, alþjóðlegt samband rannsóknarstofnana í skógvísindum, einnig FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, og TEAKNET, alþjóðlegt upplýsinganet um tekkmálefni. Vinnufundurinn var haldinn í lok maí í húsakynnum RSPG í Bangkok. Alls var tuttugu fulltrúum frá sjö Asíulöndum boðið að taka þátt í fundinum sem stóð í tvo daga.

Afrakstur fundarins í Bangkok var bráðabirgðarammi fyrir þetta verkefni, að vernda erfðaauðlind tekktrjáa, og fulltrúar þátttökulandanna lögðu grunn að því hvernig haga mætti samstarfi þeirra um málefnið, bæði alþjóðlegu samstarfi og samstarfi tiltekinna landa eða svæða. Vonast menn til að af þessu spretti fullmótað samvinnuverkefni svo sækja megi um alþjóðlega styrki. Markmiðið er að til verði afl sem geti stuðlað að því í þátttökulöndunum að bæði náttúrlegir og ræktaðir tekkskógar séu nýttir á sjálfbæran hátt og þau verðmæti varðveitt sem felast í erfðaauðlind tegundarinnar.

Samkomulag varð milli FAO og þróunardeildar IUFRO að halda áfram að móta verkefnislýsinguna en þegar því er lokið munu TEAKNET og RSPG vinna að því að koma verkefninu af stað í þátttökulöndunum. Síðar er stefnt að því að víkka það út svo það nái til allra landa í heiminum þar sem tekkskógar eru ræktaðir.

Frá þessu er sagt í veffréttamiðli IUFRO