Hluti þátttakenda á námskeiðinu slakar á milli tarna í skóginum. Ljósmynd: Sævar Hreiðarsson
Hluti þátttakenda á námskeiðinu slakar á milli tarna í skóginum. Ljósmynd: Sævar Hreiðarsson

Í dag lýkur í Heiðmörk þriggja daga námskeiði í grisjun fyrir starfandi skógarhöggsmenn sem Espen Kirk Hansen, skógarvörður hjá Óslóarborg, stýrir. Farið er á fræðilegan hátt og verklega yfir helstu þætti í vinnu skógarhöggsmanna.

Námskeiðið er á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur en norska sendiráðið tók að sér að greiða götu Espens hingað til lands og gera námskeiðið mögulegt. Þátttakendur eru úr öllum landshlutum, meðal annars tveir skógarhöggsmenn úr hverju skógarvarðarumdæmi Skógræktarinnar sem eru fjögur talsins. Þar er líka skógræktarnemi sem starfar með námi hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, tveir danskir skógtækninemar, grisjunarmaður sem starfar í skógum á útmörk Reykjavíkurborgar og tveir starfandi verktakar í skógrækt og trjá- eða skógarumhirðu.

Kennslan hófst á þriðjudag með kynningum á skógum Óslóarborgar og norska skógargeiranum. Farið var í líffræði trjátegunda, einkum sitkagrenis og stafafuru og talað um vaxtarþrótt, rótarkerfi, samkeppni við annan gróður og fleira. Einnig var farið í viðarfræði og hvernig stuðla mætti að því með réttri skógarumhirðu að skógurinn gæfi gæðatimbur til sögunar. Því næst var vikið að grisjun á fræðilegan hátt, gerð grisjunaráætlana, mælingaraðferðum og hverjir kostir og gallar mismunandi mikillar grisjunar væru. Fyrsta deginum lauk svo á verklegum þáttum grisjunar með keðjusög eða höggvél og muninum á því að grisja að sumri eða vetri. Farið var út í skóg til að æfa meðal annars viðarmælingu á prufufleti.

Í gær, miðvikudag, fór kennslan öll fram úti í skógi. Æfð var grisjun og hvernig hluta skal timburboli sundur og flytja þá úr skóginum. Fjallað var um stöðugleika trjáa sem þarf að hafa í huga þegar unnið er að skipulagningu og framkvæmd grisjunar, skoðað hvernig fara skuli með skógarjaðra til að minnka sjónræn áhrif grisjunar og einnig farið yfir uppbyggingu grisjunarreita í skóginum ásamt fleiru.

Námskeiðinu lýkur svo í dag með því að farið er yfir það sem fjallað hefur verið um á námskeiðinu og því fylgt eftir, hugað betur að stöðugleika trjáa og trjágæðum en einnig rætt um náttúrulega endurnýjun skóga og umhirðu skógar þar sem náttúruleg endurnýjun á sér stað. Í lokum verður tekið sjónarhorn á íslenska skógrækt og velt upp hvað við viljum fá út úr skógræktinni hér á landi.

Espen Kirk Hansen er skógarvörður hjá sveitarfélaginu Oslo kommune sem hefur nokkra sérstöðu í Noregi þar sem það er með stærstu skógareigendum í landinu og hefur um langan aldur hirt um og nytjað víðfeðma skóga sem er að finna í hæðunum steinsnar frá hjarta borgarinnar. Á seinni árum hefur hlutverk skóga borgarinnar breyst nokkuð, vægi skógarhöggs og timburnytja minnkað en vægi útivistargildis skóganna aukist mjög. Óslóarbúar ganga mikið um skógana, hlaupa, hjóla og á vetrum renna þeir sér og ganga á skíðum svo eitthvað sé nefnt. Skógarumhirðuna og nytjarnar hefur þurft að laga að þessari þróun.  Þá eru skógarnir líka mikilvægir til að tryggja íbúum borgarinnar áfram heilnæmt neysluvatn og engin furða að Óslóarbúum sé annt um skógana sína, vilji viðhalda þeim og njóta þeirra.

Meðfylgjandi myndir tók Sævar Hreiðarsson, starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Texti: Pétur Halldórsson