Þema alþjóðlegs dags skóga 2021 hjá FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, er endurreisn skóglendis þar sem skógi hefur áður verið eytt. Þetta er einmitt meginverkefni skógræktar á Íslandi enda var landið að miklu leyti vaxið skóglendi við landnám. Skógræktin hefur gefið út myndband í tilefni dagsins, sem er 21. mars.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2012 að 21. mars skyldi vera alþjóðlegur dagur skóga. Þá er vakin athygli á mikilvægi skóga af öllum toga, villtra skóga og ræktaðra, skóga til verndar, nytja, útivistar, kolefnisbindingar, skóga til verndar jarðvegs og vatnsgæða, skóga til verndar samfélögum fólks og menningu.

Á alþjóðlegum degi skóga eru þjóðir heimsins hvattar til að ráðast í ýmis staðbundin og alþjóðleg verkefni í skógrækt og skógvernd. Árið 2021 er þema dagsins endurreisn skóga, leið til bata og velsældar.

Á Íslandi er unnið að vernd og útbreiðslu birkiskóganna en líka að ræktun skóga til nytja og kolefnisbindingar, útivistar og skjóls. Hvers kyns nýskógrækt felur í sér endurreisn skóga á landi sem eitt sinn var að miklu leyti klætt trjágróðri.

Að rækta skóg á landi þar sem skógi hefur verið eytt er svar við BONN-áskoruninni um endurreisn skóga sem Íslendingar eiga aðild að. Tökum áskoruninni. Breiðum út skógana á ný!

Auk myndbands Skógræktarinnar er boðskapurinn tíundaður í myndbandi FAO í tilefni dagsins og það er gefið út á nokkrum tungumálum:

 

Texti: Pétur Halldórsson
Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson