Rauðgreni með myndarlegum könglum.
Rauðgreni með myndarlegum könglum.

Þemadagur NordGen 21. mars

Á þemadegi NordGen sem haldinn verður í Asker í Noregi 21. mars 2017 verður fjallað um fræ- og plöntuval á tímum hlýnandi lofts­lags. Þemadagurinn er haldinn í sam­vinnu við fræverkunarmiðstöðina Skog­frø­verket og matvæla- og land­búnaðar­ráðu­neyti Noregs.

Efla þarf kynbótastarf og huga vel að endur­nýjun skóga í Noregi á komandi árum. Þetta má meðal annars ráða af stefnuskjali norsku ríkisstjórnarinnar um skógrækt og skógariðnað sem nýlega var lagt fyrir norska stórþingið. Í skjalinu er lögð áhersla á sjálfbæra skógrækt og arðsaman skógar­iðnað sem staðsit geti samkeppni. Til að tryggja þetta þurfi að styðja við rann­sóknir og nýsköpun. Skógurinn hafi hlut­verk í bar­áttunni við loftslagsbreytingar.

Í þessum anda er líka umfjöllunarefni þemadags NordGen að þessu sinni. Yfirskriftin er á norsku „Frø- og plante­forsyning i det grønne skiftet“ sem felur í sér spurninguna um hvaða endurnýjunarefni verði þörf á næstu árin í ljósi loftslagsbreytinga. Sífellt er meira rætt um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og þar kemur við sögu binding í skógi en einnig aukin notkun trjáviðar í iðnaði og til mannvirkjagerðar. Þá ríður á að skógarnir vaxi sem best og gefi sem mest.

Þemadagur NordGen er öllum opinn. Hann verður haldinn á norsku og fer fram á Sem gjestegård í Asker sem er um hálftíma akstur í vestur frá miðborg Óslóar. Skráningarfrestur er til 1. mars.

Í kjölfar þemadagsins verður haldinn fundur daginn eftir í samráðshópi NordGen um endurnýjunarefni, Rådet for skoglig foryngelse, sem skipað er tveimur fulltrúum frá hverju Norðurlandanna. Fulltrúar Íslands í þessum hópi eru Brynjar Skúlason og Rakel J. Jónsdóttir.

Texti: Pétur Halldórsson