Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður með gripi sem hann hefur hannað og smíðað úr íslenskum viði. …
Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður með gripi sem hann hefur hannað og smíðað úr íslenskum viði. Ljósmynd af Facebook-viðburðarsíðu Skógarnytja

Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður efnir opnar sýningu á endurbættri húsgagnalínu úr íslenskum viði undir merkjum Skógarnytja fimmtudagskvöldið 27. mars. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Hönnunarmars.

Hönnunarmars fer fram í tólfta sinn dagana 25.-29. mars. Að venju verður þar kynnt margvísleg hönnun og hátíðinni er ætlað öðrum þræði að vekja athygli á hönnun sem mikilvægri atvinnugrein í  samtímanum. Á dagskránni verða fjölmargir viðburðir, sýningar , fyrirlestrar og innsetningar. Þar á meðal er sýning Björns Steinars sem skógræktarfólk og áhugafólk um viðarnytjar ætti að beina sjónum sínum að.

Björn Steinar hefur unnið að vöruhönnun úr íslensku timbri undanfarin tvö ár. Hann vakti athygli fyrir muni sem hann sýndi á Hönnunarmars í fyrra undir merkjum verkefnisins Skógarnytja. Það verkefni byggist á samstarfi við skógræktendur á Íslandi, þar á meðal Skógræktina, og markmið þess er að nýta þá verðmætu auðlind sem er að skapast í skógum landsins en einnig að stuðla að jákvæðum umhverfisáhrifum og leggja grunn að bættri viðarmenningu hérlendis. Spennandi verður að sjá hvernig verkefnið og afurðir þess hafa þróast frá því á Hönnunarmars fyrir tæpu ári.

Viðburðir Hönnunarmars eru skipulagðir ýmist af íslenskum hönnuðum og arkitektum, fyrirtækjum eða stofnunum, en þátttakendur hátíðarinnar eru um 400 ár hvert. Aukinn fjöldi erlendra þátttakenda kemur til landsins með ári hverju til að taka þátt á Hönnunarmars.

Sýning Skógarnytja verður opnuð 27. mars kl. 20 við Bríetartún 13 í Reykjavík.

Texti: Pétur Halldórsson