Mynd: New York Times
Mynd: New York Times

Hlýnandi veðurfar er farið að hafa áhrif á trjávöxt hjá nágrönnum okkar í Grænlandi. Dæmi um hlýnunina (sem vakið hefur athygli útbreiddustu fjölmiðla um heim, sjá t.d. HÉR) er að elstu skógarfurur Grænlands sem hollenski grasafræðingurinn Rosenvinge sáði til árið 1892 eru aftur farnar að vaxa eftir áratuga vaxtarstöðnun. Á morgunblaðsvefnum segir Kenneth Høegh ráðgjafi grænlensku heimastjórnarinnar í landbúnaðarmálum, að hann telji að með áframhaldandi hlýnum megi rækta nytjaskóga á stórum svæðum á sunnanverðu Grænlandi.

Trjáræktartilraunir hafa verið gerðar frá árinu 1976 við flugvöllinn í Narsarsuaq sem er í nágrenni elstu furutrjánna, sem standa innarlega við Eiríksfjörð norðanverðan. Þessar tilraunir hafa sýnt að hægt er að rækta ýmsar tegundir á sunnanverðu Grænlandi og nú stendur glæsilegt trjásafn á þessum stað. Þær trjátegundir sem hingað til hafa þrifist best eru hægvaxta tegundir frá norðlægum skógarmörkum t.d. skógarfura (Pinus sylvestris), fjallaþinur (Abies lasiocarpa), hvítgreni (Picea glauca), ilmbjörk (Betula pubescens) og balsamösp (Populus balsamea). Enn eldri tilraunareitir frá miðri síðustu öld finnast á nokkrum stöðum á sunnanverðu Grænlandi. Er árangur oft ágætur og hafa elstu reitirnir t.d. verið grisjaðir einu sinni. Hafa trjáræktartilraunirnar verið unnar í samvinnu við Skógrækt ríkisins.

Náttúrlega birkiskóga, sömu tegundar og vex á Íslandi (Betula pubescens Ehrh.), má finna í afskekktum fjörðum á sunnanverðu Grænlandi. Innan um birkið í skógunum má finna reynivið (Sorbus groenlandica), grænöl (Alnus crispa) og ýmsar víðitegundir (Salix spp.).

Meðfylgjandi mynd tók Kenneth Høegh af trjám Rosenvinges sem sáð var til 1892. Nánari upplýsingar um skógrækt og trjáræktartilraunir á Grænlandi má sjá á heimasíðu Skov og Landskab .

Ennfremur má lesa nýlegar greinar um áhrif hlýnunar á skógrækt og annan landbúnað á Grænlandi á fréttavefjum New York Times og International Herald Tribune.

Síberíulerkiskógarteigur í Qanasiassat á Grænlandi. Gróðursettur um 1960. Mynd: Christian Schultz-Lorentzen