Gamla heimreiðin af Eyjafjarðarbraut og upp í Kjarna í maí 2020. Þegar þessi mynd er borin saman við…
Gamla heimreiðin af Eyjafjarðarbraut og upp í Kjarna í maí 2020. Þegar þessi mynd er borin saman við eldri myndirnar tvær hér fyrir neðan sést hversu mjög umhverfið hefur tekið stakkaskiptum til bóta á tæpum 60 árum. Ljósmynd: Bergsveinn Þórsson

Skógræktarfélag Eyfirðinga stendur nú á níræðu. Félagið var stofnað 11. maí 1930 og hefur starfað óslitið síðan. Félagar eru hartnær 400 talsins og félagið sinnir skógrækt á um það bil tíu svæðum við Eyjafjörð.

Á stofnfundi félagsins var ákveðið að félagið skyldi heita Skógræktarfélag Íslands enda var ætlun aðalhvatamannsins að stofnun félagsins, Jóns Rögnvaldssonar frá Fífilgerði, að félagið næði yfir landið allt. Nokkrum vikum síðar var stofnað á Þingvöllum annað félag með sama nafni og fljótlega var ákveðið að það félag yrði landsfélagið en hið norðlenska fengi heitið Skógræktarfélag Eyfirðinga. Það varð fyrsta héraðsskógræktarfélag landsins og fékk aðild að Skógræktarfélagi Íslands 1932.

Mynd frá sama stað 1981. Töluvert hefur breyst, ekki bara vegurinn. Myndina tók líklega Hallgrímur IndriðasonFyrstu starfsárin voru aðalverkefni félagsins að friða skógarleifar í héraðinu en einnig að gróðursetja tré, safna og sá fræi og afla fjár til skógræktarverkefna. Þegar félagið var stofnað voru einu skógarleifarnar í Eyjafirði sem talandi var um í Leyningshólum og girti félagið mestan hluta þeirra leifa á árunum 1936-1938. Síðan hefur félagið hirt um svæðið og ræktað nýjan skóg þar sem enginn var fyrir.

Elsta myndin er frá 1961, líklega úr ljósmyndum Jóns Dalmanns Ármannsonar. Lítið er farið að sjást af skógi og vegurinn svað þegar frost var að fara úr jörðuÞunginn í starfsemi Skógræktarfélags Eyfirðinga nú er rekstur, ræktun og umhirða útivistarskógarins í Kjarna og Naustaborgum sem nýtur stuðnings Akureyrarbæjar með þjónustusamningi. Aðrir helstu skógar sem félagið hirðir um, ræktar og nytjar eru  Miðhálsstaðaskógur í Öxnadal, Hánefsstaðareitur í Svarfaðardal, Laugalandsskógur á Þelamörk, Vaðlareitur gegnt Akureyri og Garðsárreitur í Eyjafjarðarsveit. Auk þess leigir félagið út landnemaspildur á Hálsi og í Saurbæ í Eyjafjarðarsveit þar sem félagsfólk fær skika til skógræktar og umhirðu.

Meðfylgjandi myndir eru teknar nánast á sama stað á gömlu heimreiðinni upp í Kjarna sem nú þjónar aðallega sem göngu- og hjólaleið. Sú elsta er frá 1961 en hinar frá 1981 og 2020. Þær sýna vel þá framþróun sem orðið hefur. Land sem áður var rýrt og hrjóstrugt hefur klæðst skógi og gróska í öllum gróðri aukist að mun.

Félagar í Skógræktarfélagi Eyfirðinga eru nú hartnær 400 talsins og hvetur félagið alla velunnara skógræktar í Eyjafirði til að gerast bakhjarlar þess með aðild að félaginu.

Vegna veirufaraldursins hefur enn ekki verið boðað til hátíðarhalda af neinum toga í tilefni af afmælinu. Stefnt er þó að því að minnast þessara tímamóta með einhverjum hætti þegar um hægist. Skógræktin óskar Skógræktarfélagi Eyfirðinga til hamingju með daginn og bjartrar framtíðar.

Texti: Pétur Halldórsson