Nýi eldaskálinn er miðsvæðis í Vaglaskógi og kemur til með að nýtast gestum skógarins með margvísleg…
Nýi eldaskálinn er miðsvæðis í Vaglaskógi og kemur til með að nýtast gestum skógarins með margvíslegum hætti, bæði tjaldgestum og fólki eða hópum sem vilja staldra við í skóginum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Smíði eldaskála og þjónustuhúss í Vaglaskógi gengur vel en hitinn að undanförnu hefur verið helst til mikill að undanförnu, segir byggingarstjórinn. Byggingin er öll úr íslensku timbri og þar verður aðstaða til að halda samkomur í skjóli, grilla og komast á snyrtingar. Þetta er sambærilegt mannvirki og þegar er risið í Laugarvatnsskógi og hafinn er undirbúningur að því þriðja í Hallormsstaðaskógi. Rætt var um framkvæmdina við skógarvörðinn á Norðurlandi á sjónvarpsstöðinni N4 nýverið. 

Jóhannes Bjarni Eðvarðsson er yfirsmiður við verkið. Ljósmynd: Pétur HalldórssonNýi eldaskálinn verður miðsvæðis í Vaglaskógi  og skammt frá tveimur af helstu tjaldsvæðunum í skóginum. Eins og eldaskálinn í Laugarvatnsskógi er hann hannaður samkvæmt verðlaunatillögu úr samkeppni um þjónustuhús í þjóðskógunum sem haldin var árið 2014. Lítils háttar breytingar voru þó gerðar á hönnuninni, bæði vegna reynslunnar af skálanum í Laugarvatnsskógi og vegna snjóþyngslanna í Vaglaskógi. Þakhallinn var aukinn nokkuð og sperrum fjölgað í þaki.

Jóhannes Bjarni Eðvarðsson, yfirsmiður eldaskálans, hafði einnig forystu um smíði skálans á Laugarvatni. Hann segir að vissulega sé kostur að hafa reist annað hús með sama sniði og verkið gangi vel. Nokkuð erfitt hafi þó verið að vinna yfir hádaginn þá daga sem hitinn hefur verið mestur nú að undanförnu enda er skálastæðið umkringt skógi og þegar sólin skín og heitt er í veðri verður funheitt við skálann. Sömuleiðis sé erfiðara að athafna sig á brattara þaki og bera þangað upp timbrið. Þakið á skálann var þó komið vel á veg þegar skogur.is var á ferð í Vaglaskógi nýverið og verkinu miðaði vel. Í ljósi reynslunnar af skálanum við Laugarvatn var útfærslu á klæðningu þaksins breytt lítillega og m.a. bætt við þakpappa milli laga til að það leki ekki. Timbrið er allt saman sitkagreni úr sunnlenskum þjóðskógum.

Auk þess að skýla gestum verður hægt að grilla í eldaskálanum og sömuleiðis verða þar snyrtingar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Gaman verður að fylgjast áfram með smíði skálans í Vaglaskógi. Í viðtali við sjónvarpsstöðina N4 segir Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, að skálinn komi til með að breyta miklu fyrir gesti skógarins, bæði tjaldgesti sem þar dvelja en ekki síður fólk sem kemur dagsferð í skóginn eða staldrar þar við til að fá sér bita, fólk í hópferðum og þvíumlíkt. Skálinn verður kominn undir þak fyrir haustið en gert er ráð fyrir að fullnaðarfrágangi ljúki ekki fyrr en á næsta ári með snyrtingum og öðru sem tilheyrir.

Framkvæmdin nýtur fjármagns úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Skógræktin sér um öflun og vinnslu viðarins í bygginguna.

 Texti og myndir: Pétur Halldórsson

Þakið á eldaskálanum í Vaglaskógi verður heldur brattara en í samsvarandi byggingu í Laugarvatnsskógi og meiri burður í þakinu vegna snjóþyngsla í Fnjóskadal. Timbrið er sitkagreni úr sunnlenskum þjóðskógum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson