Ung stafafura í góðum vexti. Mynd: Pétur Halldórsson.
Ung stafafura í góðum vexti. Mynd: Pétur Halldórsson.

Möguleg binding með skógrækt tíunduð í nýrri „Brynhildarskýrslu“

Árleg nettóbinding íslenskra skóga gæti orðið um ein milljón tonna um miðja öldina, mælt í koltvísýringsígildum, ef gróðursett væri fjórum sinnum meira á hverju ári en nú er gert. Binding eins tonns af koltvísýringi með skógrækt kostar um 2.500 krónur. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var í dag.

Skýrslan hefur í daglegu tali verið kölluð „Brynhildarskýrslan“ í höfuðið á ritstjóra hennar, Brynhildi Davíðsdóttur prófessor. Ráðuneytið fól Hagfræðistofnun að gera greiningarskýrslu um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Skýrsluna skyldi nýta til að byggja undir stefnumótun stjórnvalda í loftslagsmálum. Brynhildur stýrði einnig verki þegar sambærileg skýrsla var gerð árið 2009. Sú var lögð til grundvallar aðgerðaáætlun til draga úr losun og samþykkt var í ríkisstjórn 2010. Sú áætlun miðaði að því að Ísland gæti staðið við skuldbindingar til 2020 skv. ákvæðum Kíótó-bókunarinnar.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram sú spá að losun muni aukast um 53-99 prósent fram til ársins 2030 frá því sem var 1990. Ef kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu er tekin með er aukningin heldur minni, eða 33-79 prósent. Mest eykst losunin frá stóriðju. Í skýrslunni eru tíundaðir margvíslegir möguleikar sem Íslendingum standi til boða til að draga úr losun. Greindar voru 30 mótvægisaðgerðir, kostnaður þeirra og ábati. Sumir kostir eru dýrir, aðrir kosta tiltölulega lítið og sumir skila jafnvel fjárhagslegum nettóábata. Skýrslan greinir tæknilega möguleika á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. Þó er tekið fram að margt hafi áhrif á hvort samdráttur í losun verði í raun, s.s. stjórnvaldsákvarðanir, olíuverð og fleiri þættir. Að óbreyttu stefni í að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til 2030, en slíkt sé hins vegar mögulegt ef gripið verði til frekari mótvægisaðgerða.

Skógrækt er ein þeirra leiða sem eru tiltækar til að binda mikið magn koltvísýringsígilda á hagkvæman hátt. Einungis lítill hluti landsins sé þakinn skógi og rannsóknir sýni að verulegt magn koltvísýrings bindist í skógi og skógarjarðvegi á Íslandi. Heildarumfang bindingar árið 2030 vegna skógræktar að gefnum forsendum geti orðið 369 þúsund tonn koltvísýringsígilda með óbreyttu umfangi skógræktar en 535 þúsund tonn ef umfangið væri fjórfaldað. Með þeim hraða næði bindingin einni milljón tonna á ári um miðbik aldarinnar.

Sjá má á skýrslunni að skógrækt er ein þeirra leiða sem Íslendingum eru færar til að binda verulegt magn koltvísýrings með hagkvæmum hætti. Binding eins tonns koltvísýringsígilda með skógrækt kostar um 2.500 krónur. Að sjálfsögðu gefa skógarnir fleira en kolefnisbindingu og með tímanum verður til verðmæt auðlind. Um kostnaðinn segir orðrétt í skýrslunni (bls. 138):

Þar sem stærstur hluti kostnaðar fellur til við gróðursetningu, en binding gróðurhúsategunda á sér stað árum og áratugum síðar eru niðurstöðurnar næmar fyrir vali á reiknivöxtum. Ef reiknivextir væru 4% væri kostnaðurinn við að binda hvert tonn af CO2gildi um 1500 kr. og ef reiknivextir væru 3% væri kostnaðurinn um 500 kr.

Í frétt um skýrsluna á vef ráðuneytisins er vísað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, stefni að því að kynna Alþingi skýrslu sína um loftslagsmál nú í febrúarmánuði. Skýrslan muni m.a. taka mið af þeim niðurstöðum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem kynntar voru í dag. 

Texti: Pétur Halldórsson