Spennandi tilraun í Sandlækjarmýri

Ljóst þykir að íslenskur iðnviðarskógur með alaskaösp geti endurnýjast sjálfkrafa eftir rjóðurfellingu þannig að óþarft sé að gróðursetja aftur í skóginn. Ef öspin reynist vera slík „eilífðarvél“ í ræktun hérlendis eykur það til muna hagkvæmni asparskógræktar til framleiðslu viðarkurls. Mikil spurn er eftir viðarkurli hjá kísilmálmiðnaðinum og útlit fyrir að hún aukist mjög á næstu árum. Nú er verið að rjóðurfella hartnær aldarfjórðungs gamla ösp  í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til að rannsaka hvernig hún endurnýjast upp af rót.

Ræktun asparskógarins í Sandlækjarmýri hófst í byrjun tíunda áratugarins en þá höfðu Íslendingar litla reynslu af skógrækt með þessari tegund utan garða og trjálunda. Margir af eldri kynslóð skógræktarmanna voru afar svartsýnir og töldu að ösp gæti aðeins tórt með mikill umhyggju og stöðugri áburðargjöf. Engu að síður var ráðist í að gera áætlanir um trjávöxt á þessum stað fyrir iðnviðarverkefni. Allt virðist benda til þess að þessar áætlanir hafi fyllilega staðist tímans tönn og jafnvel gott betur. Skógurinn er líka mjög gróskumikill eins og vegfarendur geta séð sem aka Skeiðaveg í átt að Flúðum skömmu áður en kemur að brúnni yfir Stóru-Laxá eða Þjórsárdalsveg til austurs af Skeiðavegi.

Þegar áætlanir voru unnar um skógræktina í Sandlækjarmýri var metinn vöxtur alaskaaspar í smáum reitum víða um land og vaxtarspár gerðar út frá því. Gert var ráð fyrir að trén yrðu um 7 metra há á 20 árum og viðarvöxtur um 8 rúmmetrar á hektara miðað við 20 ára lotu. Spár þessar þóttu æði glannalegar en skemmst er frá því að segja að þær stóðust mjög vel. Tvítug voru trén í Sandlækjarmýri að meðaltali 7,40 m há og heildarviðarmagnið álíka og spáð hafði verið. Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur á Mógilsá, sem hefur umsjón með tilrauninni nú, segir að öspin nái líklega hámarksframleiðni um 35 ára aldur og í slíkri lotu megi búast við um 10 rúmmetra meðalframleiðni á ári. Mikil verðmæti hafa myndast í öspinni í Sandlækjarmýri á innan við aldarfjórðungi og það með mjög lítilli fyrirhöfn og kostnaði eftir gróðursetningu.

er unnið að því að meta endurvöxt asparinnar í Sandlækjarmýri og frá því í febrúar á þessu ári hafa tré verið felld þar mánaðarlega eftir sérstakri áætlun. Þegar því lýkur í janúar 2015 standa eftir tveir rjóðurfelldir reitir sem verða 0,28 hektarar hvor, 75X28 metrar. Hvorum reit er skipt í átján smærri reiti þar sem trén eru felld á mismunandi tíma, þrír smáreitir í einu, 15-20 tré í hverjum reit. Þannig fást 36 mælireitir þar sem hægt er að fylgjast með endurnýjun asparinnar með teinungum og rótarskotum. Annars vegar er skoðað hversu mikið trén hafa vaxið á 22 árum og hins vegar hvað vex upp aftur eftir höggið en einnig hvaða máli skiptir hvenær ársins höggvið er. Með því að höggva tré í öllum mánuðum ársins vonast menn til að komast betur að því á hvaða árstíma er vænlegast að höggva öspina. Gert er ráð fyrir því að það sé á veturna þegar trén eru í dvala en óljóst er hvar mörkin liggja, hvenær hausts er óhætt að byrja að fella og hvenær vors er rétt að hætta. Þegar trén lifna við á vorin eykst mjög álag á rótarkerfið og þá verður meiri hætta á að tréð drepist ef það er fellt.

Endurvöxtur af öspinni er tvenns konar. Annars vegar vaxa upp sprotar eða teinungar af stubbnum sem eftir er af stofni trésins, gjarnan nokkrir tugir sprota, en hins vegar koma upp rótarskot sem geta verið 3-5 við hvert tré. Þorbergur Hjalti segir að á svæðinu sem nú er verið að rjóðurfella séu um 1.600 tré á hektara. Því geti vaxið þar upp tugir þúsunda trjáa á hektara eftir rjóðurfellingu. Auk þess að kanna hvernig öspin endurnýjar sig með rótarskotum og stúfsprotum verður fylgst með hversu þéttur skógurinn verður, hvort upp vaxa sver tré með grennri trjám á milli eða hvort þetta verður mjög þéttur skógur af álíka grönnum trjám. Þá má meta hvort borgar sig að grisja og leggja áherslu á færri en sverari tré eða hvort skynsamlegra er að leyfa skóginum að vaxa sem þéttustum og slá hann reglulega. Þá yrði beitt aðferðum eins og notaðar eru í iðnviðarskógrækt víða erlendis. Eftir fyrstu lotuna kæmi þá til greina að rækta skóginn í styttri lotum, slá hann á t.d. 12 ára fresti og selja viðinn sem iðnvið til kurlunar.

Eins og er bendir ekkert til annars en að þessi endurvöxtur skógarins standist væntingar og að ekki þurfi að endurrækta skóg af þessum toga með jarðvinnslu og gróðursetningu. Ef ekki þarf að gróðursetja í skóginn nema einu sinni eykur það til muna hagkvæmni asparskógræktar til viðarkurlsframleiðslu. Kostnað af jarðvinnslu og gróðursetningu þarf þá ekki að greiða nema einu sinni og sami skógurinn gefur þá uppskeru aftur og aftur án mikillar fyrirhafnar fyrir skógareigandann. Spurningin er þá einungis sú hversu mikill kostnaður verður af umhirðu skógarins meðan hann vex upp aftur.

Myndirnar sem hér fylgja tók Rúnar Gunnarsson fyrir Skógrækt ríkisins. Rúnar rekur fyrirtækið Þríbrot og býður upp á myndatökur úr litlu flygildi eða dróna, fjögurra spaða fjarstýrðri þyrlu. Þessi tækni gefur skógræktendum ýmsa möguleika. Gagnlegt getur verið að geta séð skóginn sinn frá fleiri sjónarhornum, ekki síst úr lofti.

Hingað til hafa menn staðið í þeirri trú að asparskógurinn í Sandlækjarmýri væri að mestu leyti einklóna mónókúltúr 'Iðunnar‘ að frátöldum átta hekturum í landi Þrándarholts sem lagðir voru undir ýmsar tilraunir, þ.á.m. klónatilraunir. Myndirnar sem Rúnar tók í ágúst segja allt aðra sögu. Litarmunur á öspunum sýnir að í það minnsta einn annar klónn virðist hafa slæðst með í þessari ræktun hjá þeim garðyrkjubændum sem sáu um ræktun aspanna í upphafi. Víða má sjá raðir inn á milli, m.a. á myndinni hér til hægri, þar sem greinilega er annar klónn á ferðinni. Hægra megin eru raðir með ljósgrænni lauflit en hjá 'Iðunni'.


Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Rúnar Gunnarsson/http://www.3brot.is/