Hekluskógar til umræðu í Samfélaginu á Rás 1

Útlit er fyrir mikla fræmyndun í sumar í Hekluskógum eins og annars staðar á landinu. Birkitrén eru hlaðin bæði kven- og karlreklum að sögn Hreins Óskarssonar, sviðstjóra hjá Skógræktinni, sem rætt var við í Samfélaginu á Rás 1 í gær. Sú hugmynd er nú rædd að efna til fræsöfnunarátaks í haust til að nýta allt það fræ sem útlit er fyrir að þroskist þetta sumarið.

Í þættinum tíundaði útvarpsmaðurinn Leifur Hauksson frjókornamet sem slegin voru í frjómæli Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri 21. maí þegar frjótala birkis fór í 658 frjó á rúmmetra sem er mesta magn birkifrjókorna sem mælst hefur á einum sólarhring á Íslandi. Aldrei áður hafa mælst fleiri frjókorn í maímánuði hérlendis en mældist á Akureyri í maí. Frjó eru yfir meðallagi í mæli stofnunarinnar í Garðabæ líka. Þetta ber vott um hversu snemma sumarið er á ferðinni þetta árið.

Í spjalli við Hrein Óskarsson kom fram að blómgun væri mikil á birki alls staðar þar sem hann hefði komið. Blómgun og laufgun á birki er skráð í skýrslum skógarvarða langt aftur og þar kemur fram að á árum áður hafi birkið iðulega ekki blómgast og laufgast fyrr en komið var fram í júnímánuð. Það er því mjög snemma á ferðinni þetta sumarið enda veturinn mildur og frost í jörðu tafði ekki fyrir í vor.

Fjöldi sjálfboðahópa hefur komið til gróðursetningar á Hekluskógasvæðinu í vor að sögn Hreins og gróðursetning er langt komin. Gróðursettar verða a.m.k. 250.000 plöntur í sumar. Hekluskógasvæðið er um eitt prósent landsins og markmiðið er að birkið sjái að miklu leyti sjálft um að breiða sig út um allt svæðið frá þeim blettum sem gróðursett hefur verið í. Elstu trén frá 2007 og 2008 eru farin að blómstra mikið og Hreinn býst við miklum sjálfsáningum frá þessum trjám á næstu árum.

Birkitrén eiga erfitt með að ræta sig í grófum vikrinum og því þarf helst að myndast mosa- eða þörungaskán í auðninni svo fræin hafi set til að spíra og vaxa af stað, segir Hreinn. Kjötmjöl er mikið notað í Hekluskógum til að flýta fyrir því að skánin myndist og örva fyrsta lággróðurinn. Í ár hafa Hekluskógar 53 milljónir króna til ráðstöfunar sem er um helmingi meira en verkefnið hafði úr að spila áður. Því er hægt að dreifa meiri áburði og herða enn á þessu góða uppgræðslustarfi.

Rætt hefur verið að efna verði til frætínsluátaks í haust vegna þessarar miklu fræmyndunar sem útlit er fyrir í haust. Í undirbúningi er að setja saman hóp til að skipuleggja það starf og hugmyndin að reyna að fá skóla landsins til samstarfs, segir Hreinn Óskarsson sem er sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar en var framkvæmdastjóri Hekluskóga þar til Hrönn Guðmundsdóttir tók við því starfi í vetur.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson