Úr Heiðmörk. Mynd af vef OR.
Úr Heiðmörk. Mynd af vef OR.

Áratuga farsælt samstarf veitnanna og Skógræktarfélags Reykjavíkur

Orkuveita Reykjavíkur og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa gert með sér samkomulag sem ætlað er að efla vatnsvernd og öryggi útivistarfólks í landi OR í Heiðmörk. Markmið samningsins er að standa vörð um vatnból og vatnsverndarsvæðin í Heiðmörk, bæta útivist og skilgreina betur stíga og slóða fyrir umferð um svæðið. Á hverju ári kemur um hálf milljón gesta í Heiðmörk til að njóta náttúrunnar, hvort sem er á reiðhjóli, hestbaki eða gangandi.

Skógræktarfélagið tekur að sér að sjá um viðhald merkinga vegna bílaumferðar, merkingar hjólreiðastíga og grisjun frá þeim sem og skilti um umferðarstýringu á eldra göngustígakerfi á Elliðavatnsheiði. SR mun einnig sjá um lokun á vegi við bílastæði ofan Myllulækjartjarnar og uppsetningu hindrunar þar sem utanvegaakstur hefur átt sér stað, lokun árstíðarbundins vinnuvegar við Hnífhól og lokun á slóða við Þjóðhátíðarlund. Þá setur Skógræktarfélagið upp staura við innganga á stíganet Heiðmerkur.

Heiðmörk á sér langa sögu sem útivistarsvæði en bæjarstjórn Reykjavíkur stofnaði formlega til hennar 1950 sem friðland og skemmtigarð fyrir Reykvíkinga. Samtímis fól borgin Skógræktarfélagi Reykjavíkur umsjón svæðisins og var þá þegar hafist handa við ræktun skóga til uppgræðslu og yndis fyrir bæjarbúa.

Veiturnar, sem nú eru innan Orkuveitu Reykjavíkur, og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa átt mikið og gott samstarf svo áratugum skiptir, þar með talið í Heiðmörk.  SR hefur, m.a. m séð um daglega umsjón, uppbyggingu og rekstur útivistarsvæðisins og OR hefur tekið virkan þátt í umhirðu vatnsverndarsvæðisins og í nauðsynlegum verkefnum til stuðnings útivistar almennings í Heiðmörk svo vatnsvernd og útivist falli sem best saman.

Af vef Orkuveitu Reykjavíkur