Rannsóknir á skógarleifunum sýna að skógurinn hefur eyðst í miklu jökulhlaupi sem komið hefur úr Mýrdalsjökli og farið niður Markarfljótsaura skömmu fyrir landnám.

Í sumar hóf Mógilsá rannsókn á fornum skógarleifum sem finnast við eyrar Þverár í Fljótshlíð. Staðurinn nefnist Drumbabót en ekki er vitað hvaðan nafngiftin kemur né hve gömul hún er.  

Svæðið einkennist af miklum fjölda lurka sem standa c. 20-60 sm upp úr sendnum árframburði (sjá mynd).  Gildustu lurkarnir eru yfir 30 sm í þvermál sem er svipað og  sverustu birkitré í skógum landsins í dag. Grafið var niður með nokkrum lurkum og kom þá í ljós að rót þeirra situr í sendnum móajarðvegi. Einnig var sláandi að nær allir lurkarnir hafa svipaða hallastefnu, til suð-vesturs.

Forrannsóknir á skógarleifunum sýna að skógurinn hefur eyðst í miklu jökulhlaupi sem komið hefur úr Mýrdalsjökli og sýna árhringjarannsóknir að skógurinn hefur fallið í einum atburði.

Tilurð lurkanna gefur okkur þann einstaka möguleika að aldursgreina hlaupið með mikilli nákvæmni. Valin hafa verið 8 sýni úr sömu trjásneið til geislakols-aldursgreininga og munu niðurstöður liggja fyrir í byrjun næsta árs, þær munu gefa upplýsingar um aldur lurkanna (+/- 30 ár) og þar af leiðandi aldur hlaupsins og þeirra eldsumbrota sem komu því af stað.

Hér er því einstakt tækifæri til að aldursgreina á mjög nákvæman hátt hamfarahlaup sem dreifðist um Markarfljótsaura líklegast vegna umbrota í Kötlu.