Í síðustu viku kom danskur skógarverktakinn Peter Laursen til Ísland í boði skógræktarstjóra Skógræktar ríkisins. Tilefni ferðarinnar var að fá mat Peters á því hvort komið væri að þeim tímapunkti í íslenskri skógrækt að hægt væri að nota skógarhöggsvél til að takast á við þau stóru grisjunarverkefni sem framundan eru í þjóðskógum landsins.

Jón Loftsson, skógræktarstjóri og Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur, fóru með Peter í Skorradal, Haukadal og Þjórsárdal þar sem grisjunarverkefni voru skoðuð. Mat Peters á gæðum íslensku skóganna var að hér væru orðin til verðmæt auðlind sem væri fyllilega sambærileg við það sem gerðist í Danmörku. Stóru sitkagreniskógarnir í Skorradal væru af þeirri stærðargráðu að þar væri hægt að nota stórvirkar skógarhöggsvélar. Skógarnir í Haukdal og Þjórsárdal þyrftu 10 ár í viðbót til að hagkvæmt væri að nota slíkar vélar þar. Í framhaldi af ferð Peters var ákveðið að fá til landsins skógarhöggsvél til reynslu og spreyta sig í sitkagreniskógunum á Stálpastöðum í Skorradal.  

Á myndinni má sjá Peter ásamt Þórði Þórðarsyni, aðstoðarskógarverði, Lárusi Heiðarssyni skógræktarráðunaut og Birgi Haukssyni, skógarverði. Myndin er tekin í 48 ára gömlum sitkagreniskógi á Stálpastöðum í Skorradal.


Texti og mynd: Jón Loftsson, skógræktarstjóri Skógræktar ríkisins.