Myndir frá skógarjörðum úr öllum landshlutum

Út er komið fyrsta dagatal hinnar nýju stofnunar, Skógræktarinnar. Ákveðið var að helga dagatalið skógarbændum í tilefni af sameiningu skógræktarstofnana ríkisins sem gengur endanlega í gegn nú um áramótin.

Þjónusta og samstarf við skógarbændur er einn stærsti og mikilvægasti þátturinn í starfsemi Skógræktarinnar. Skógur er ræktaður á um 600 jörðum vítt og breitt um landið og skógræktarstarf bænda verður æ mikilvægari hluti af íslenskum landbúnaði. Skógræktin vill vekja athygli á þeim fyrirmyndum sem skógarbændur eru öðrum bændum til eflingar bújarða sinna og bættra búsetuskilyrða í sveitum landsins.

Dagatal Skógræktarinnar 2017 kemur út í 1.150 eintökum og er meðal annars dreift til allra lögbýla á landinu sem eru með skógræktarsamning. Pétur Halldórsson stýrði útgáfu dagatalsins en um hönnun þess sá Esther Ösp Gunnarsdóttir. Meðfylgjandi mynd tók Agnes Geirdal, skógarbóndi á Galtalæk í Biskupstungum. Myndin fylgir janúarmánuði í dagatalinu og sýnir hluta skógarins á Galtalæk með Jarlhettur í baksýn.

Þessi mynd af fallegum trjágróðri í landi Galtalækjar í Biskupstungum
fylgir janúarmánuði í dagatali Skógræktarinnar 2017.
Mynd: Agnes Geirdal..

Hlaða má niður dagatalinu hér á vefnum.

Texti: Pétur Halldórsson