Sveppur janúarmánaðar 2021 á dagatali Skógræktarinnar er barrvöndur (Clavulina rugosa). Ljósmyndarin…
Sveppur janúarmánaðar 2021 á dagatali Skógræktarinnar er barrvöndur (Clavulina rugosa). Ljósmyndarinn, Atli Arnarson, myndaði hann á Mógilsá. Barrvöndur er kóralsveppur sem myndar útræna svepprót með trjám, oftast barrtrjám en stundum með lauftrjám. Hann er ætur, en ekki sérlega ljúffengur.

Myndir af sveppum sem þrífast á trjám og í skógum landsins prýða dagatal Skógræktarinnar fyrir árið 2021. Dagatalið má prenta út en því fylgja einnig myndir með innfelldum mánaðardögum sem fólk getur notað sem skjáborðsmynd á tölvum sínum og skipt um mánaðarlega.

Sýnishorn úr prentanlegri útgáfu dagatalsins 2021Þema dagatalsins að þessu sinni er sveppir sem finna má í skógum landsins, á rotnandi viði eða í samlífi með lifandi trjám. Myndirnar tók Atli Arnarson ljósmyndari af mikilli natni og sýna myndirnar sveppina frábærlega vel. Um hönnun dagatalsins sá Þrúður Óskarsdóttir á hönnunarstofunni Forstofunni.

Í samræmi við þá stefnu Skógræktarinnar að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar og efnisnotkun var ákveðið að hætta prentaðri útgáfu dagatals stofnunarinnar. Í staðinn er dagatalið nú gefið út rafrænt en notendum í sjálfsvald sett hvort þeir prenta það út á eigin prenturum til að hengja upp eða nota dagatalið eingöngu á skjám. Útgáfan er tvenns konar. Annars vegar er hefðbundin uppsetning í stærðinni A4 sem prenta má út og hengja upp á vegg. Ef fólk hefur aðgang að prentara sem prentar á A3 má líka útbúa stærri útgáfu. Hins vegar eru skjáborðsmyndirnar sem passa sem veggfóður eða skjáborðsmynd á tölvum.

Dagatali Skógræktarinnar má annars vegar hlaða niður í heilu lagi og hins vegar sem stökum skjámyndum. Allt þetta má finna með því að smella á hlekkinn hér að neðan. Jafnframt verður komandi mánuður birtur mánaðarlega hér á vef Skógræktarinnar, á samfélagsmiðlum og í tölvupósti.

 

Texti: Pétur Halldórsson

 Skjáborðsmynd janúarmánaðar 2021