Þúsund ára tímatal skráð með hjálp árhringja úr trjám

Samstarf Rúmena, Norðmanna og Íslendinga í rannsóknarverkefni sem kallast CLIMFOR hófst formlega í síðustu viku með fundi í borginni Suceava í norðaustanverðri Rúmeníu. Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka veðurfarsbreytingar síðustu árþúsunda með árhringjum trjáa, vatnaseti og ísalögum hella. Þetta er eitt sex verkefna sem hlutu styrk úr uppbyggingarsjóði EES (áður þróunarsjóði EFTA) og hlaut rúmenska verkefnið næstbestu einkunnina í mati dómnefndar. Styrkurinn til verkefnisins nemur um einni milljón evra sem skiptist á árin 2014-2017. Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, tekur þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd.

Meginmarkmið CLIMFOR-verkefnisins er að skrá þúsund ára tímatal loftslags á tilteknum svæðum í austanverðum Karpatafjöllum og lesa út úr því viðbrögð skóga við loftslagsbreytingum. Vísindamenn við Stefan cel Mare háskólann í Suceava í Rúmeníu höfðu frumkvæði að verkefninu og efndu til samstarfs við Ólaf Eggertsson og norska skógvistfræðinginn Andreas Kirchhefer sem starfar hjá norsku náttúruvísindastofnuninni NINA í Tromsø. Báðir hafa þeir Ólafur og Andreas stundað svipaðar rannsóknir áður og búa yfir þekkingu og reynslu sem nýtist rúmensku vísindamönnunum vel. Einnig tekur rúmenska skógvísindastofnunin ICAS þátt í verkefninu. Blaðamannafundur um verkefnið var haldinn í háskólanum í Suceava mánudaginn 3. nóvember.

Í rannsókninni, sem stendur næstu þrjú árin, verður gögnum safnað með þrennum hætti. Í fyrsta lagi verða tekin kjarnasýni úr trjám, bæði lifandi trjám í skógi, dauðum trjábolum sem varðveist geta lengi í fjöllunum og timbri í gömlum byggingum. Í öðru lagi finnast í Karpatafjöllunum hellar með sífrera þar sem tekin verða kjarnasýni úr ísnum og í þriðja lagi verða tekin kjarnasýni úr setlögum tjarna og stöðuvatna.

Undanfarna öld eða svo hefur æ betur verið fylgst með breytingum á veðurfari og loftslagi jarðarinnar. En eftir því sem þeim breytingum sem nú eru í gangi vindur fram verður æ mikilvægara að geta borið það sem nú er að gerast saman við atburði í veðurfari á umliðnum öldum. Skilningur okkar á breytingunum nú eykst með því að setja þær í lengra samhengi. Meðal annars er gagnlegt að greina hversu mikil áhrif athafnir mannsins hafa á loftslagið miðað við áhrif náttúrlegra þátta.

Skammstöfunin CLIMFOR stendur fyrir enskt heiti verkefnisins, „Forest response to climate change predicted from multicentury climate proxy-records in the Carpathian region“. Það mætti útleggja á íslensku sem viðbrögð skóga við loftslagsbreytingum eins og þau birtast í margra alda veðurvísum í Karpatafjöllum. Vonast er til þess að CLIMFOR-verkefnið geti svarað spurningunni um hvort loftslagsbreytingar í Karpatafjöllum á 20. öld voru meiri og hraðari en gera hefði mátt ráð fyrir með náttúrlegri sveiflu. Í framhaldi af því vilja aðstandendur verkefnisins líka fá svör við spurningu sem brennur á skógariðnaðinum, hvernig skógarnir í Karpatafjöllum hafa hingað til brugðist við náttúrlegum loftslagsbreytingum af svipaðri stærðargráðu. Sú vitneskja er ekki síst mikilvæg fyrir land eins og Rúmeníu þar sem skógariðnaður er snar þáttur í efnahagslífinu.

Eins og sakir standa eru ekki til haldbær gögn úr skógunum nema eina öld aftur í tímann eða svo. Þess vegna er mikilvægt að afla fjölþættra loftslagsgagna frá lengri tíma og þar koma árhringir úr trjám til skjalanna sem veðurvísar eða veðurvitni um fyrri tíma (proxy). Þættir eins og breidd árhrings, þéttleiki viðarins og stöðugar samsætur sellulósans segja til um veðurfar viðkomandi árs. Þá eru í Karpatafjöllunum hellar með sífrera þar sem nýtt lag af ís hleðst á hverju ári ofan á eldri lög. Ísinn skráir þar með upplýsingar um veðurfarið ekki ósvipað og árhringir í trjám. Þannig má bera upplýsingar úr áhringjum trjáa saman við upplýsingar sem fengist hafa með borkjörnum úr hellaís. Í ísnum segir þykkt viðkomandi lags og stöðugar samstætur til um veðurfarið ekki ósvipað og árhringir trjánna. Þar að auki má finna sambærilegar upplýsingar með því að bora í setlög stöðuvatna þar sem þykkt hvers lags er skoðuð, frjókorn í setinu og svo framvegis.

Með öðrum orðum er meiningin með CLIMFOR-verkefninu að safna nákvæmum gögnum sem geta varpað ljósi á:

1) stærð og hraða loftslagsbreytinga

2) stærð og tíðni öfga í veðurfari síðustu þúsund árin.

Með því að keyra saman söguleg loftslagsgögn sem fengist hafa með rannsóknum á trjám (dendrochronology), veðurmælingum, ísótóparannsóknum, athugunum á frosnum setlögum og setlögum úr votlendi er vonast til þess að hægt verði að teikna upp í fyrsta sinn nákvæma og ítarlega mynd af þróun loftslags í Karpatafjöllum á síðnútíma (late-holocene) og tímabilinu sem liðið er frá iðnbyltingu, svokallaðri mannöld (anthropocene).

Rúmensku vísindamennirnir sem taka þátt í CLIMFOR-verkefninu hafa allir unnið að rannsóknum á þessu sviði áður með gagnasöfnun af þessum toga. Þeir þekkja því ljónin sem geta verið í veginum. Bæði fyrri reynsla og eldri gögn mun nýtast vel í þeirri vinnu sem fram undan er.

Verkefnið styrkir það rannsóknarnet sem fyrir er í Rúmeníu á sviði sögulegra loftslagsrannsókna, gerir kleift að kaupa þau vísindatæki og tól sem nauðsynleg eru og styrkir þannig innviði rannsókna í landinu. Jafnframt eflir það samstarf Rúmena við vísindamenn í löndunum sem styðja verkefnið, Noregi og Íslandi. Verkefnið er unnið í anda Horizon 2020 áætlunar Evrópusambandsins sem gefur því aukna vigt.

Hlekkir:

Texti og myndir: Pétur Halldórsson