Skjámynd úr frétt Stöðvar 2
Skjámynd úr frétt Stöðvar 2

Hreinn Óskarsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni, segir að skemmdir á trjágróðri í Þjórsárdal vegna heræfinga NATO um helgina séu minni en búast hefði mátt við af lýsingum. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins ætlar að sjá til þess að skemmdir verði bættar og Hreinn vonast til að utanríkisráðherra komi til gróðursetningar á Hekluskógasvæðinu í vor.

Fjallað hefur verið um það í ýmsum fjölmiðlum að herflokkar sem voru við æfingar í Þjórsárdal hafi farið yfir svæði þar sem birki var gróðursett fyrir fáeinum árum á vegum Hekluskóga. Meðal þess sem hermennirnir æfðu var að koma upp tjaldbúðum í kulda og vosbúð. Miðað við lýsingar hefði mátt búast við því að miklar skemmdir væru á trjágróðri. Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Hekluskóga, fór á svæðið til að kanna skemmdirnar og einnig Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi og Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar.

Í frétt Stöðvar 2 um málið var rætt við Hrein sem segir að einungis fá tré séu skemmd eftir hermennina. Einnig var rætt við Snorra Matthíasson hjá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem segir að rætt verði við Skógræktina nánar og kannað hvort tjón hafi orðið. Sé svo verði það bætt í samstarfi við Bandaríkjamenn.

Texti: Pétur Halldórsson