Frá framkvæmdasvæðinu í miðbæ Selfoss. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson
Frá framkvæmdasvæðinu í miðbæ Selfoss. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan miðbæ á Selfossi. Þar er brugðið út af þeirri algengu venju að ryðja burt öllum trjágróðri áður en grafið er fyrir grunnum húsa. Í staðinn eru rótgróin tré skilin eftir og því þarf ekki að bíða áratugi eftir að slíkur trjágróður prýði hinn nýja miðbæ.

Annað sjónarhorn á trén í Sigtúnsgarði á Selfossi, Ölfursárbrú í baksýn vinstra megin. Ljósmynd: Trausti JóhannssonÁ hverju ári er fjöldi myndarlegra trjáa felldur í þéttbýli hérlendis. Oft er nauðsynlegt að fella tré og geta verið margar góðar og gildar ástæður fyrir slíku. Þó er óhætt að fullyrða að oft séu tré felld að óþörfu og litlir hagsmunir látnir víkja fyrir meiri. Ekki er allt fengið með svolitlu viðbótarútsýni ef á móti kemur meiri, vindur, meira ryk, meiri hávaði, minna fuglalíf og svo framvegis. Tré gera margvíslegt gagn í þéttbýli og jafnvel þótt vissulega sé hægt að gróðursetja ný tré í stað þeirra gömlu tekur áratugi fyrir þau að vaxa svo þau geri virkilega gagn. Sú hugsun sem virðist vera leiðarljós við framkvæmdirnar á Selfossi er virkilega til fyrirmyndar.

Meðfylgjandi myndir tók Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, af trjánum á framkvæmdasvæðinu í Sigtúnsgarði á Selfossi. Starfsfólk Skógræktarinnar sem hefur aðsetur í starfstöðinni þar í bæ sér einmitt yfir framkvæmdasvæðið út um gluggann á skrifstofunum við Austurveg. Gaman verður að sjá hvernig trén taka sig út innan um þau hús í gömlum stíl sem ætlunin er að myndi nýja miðbæinn á Selfossi. Eftir því sem Trausti kemst næst er þetta reyniviður og líklega alaskaösp einnig.

Texti: Pétur Halldórsson