Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hvetur námsfólk, kennara, fræðifólk og forystufólk í skólakerfinu til að aðstoða við að kynna verkefnið Global Forest Education Project á samfélagsmiðlum. Ekkert þarf til nema snjallsíma og góð skilaboð um mikilvægi skógartengdrar fræðslu og menntunar.

Verkefnið vinnur FAO í samstarfi við ITTO, alþjóðleg samtök um um timbur úr hitabeltinu og IUFRO, alþjóðleg samtök skógvísindastofnana, með styrk frá matvæla- og landbúnaðarráðuneyti Þýskalands. Markmiðið er að búa til alþjóðlegan vettvang fyrir skógartengda menntun og fræðslu.

Þetta þarft þú að gera ef þú vilt vera með:

1. Notaðu snjallsíma eða annað tæki sem getur tekið upp myndbönd og taktu upp stutt myndband (allt að 30 sekúndna langt) af sjálfum þér. Byrjaðu á að kynna þig stuttlega (nafn, titill, land) og útskýrðu svo á einföldu máli hvers vegna skógarfræðsla er mikilvæg. Dæmi:

  • Skógarmenntun er nauðsynleg svo þjálfaðar verði nýjar kynslóðir skógfræðinga til að hirða og rækta skóga heimsins með sjálfbærum hætti svo skógarnir geti fólki, dýrum og umhverfinu sín margvíslegu gæði.
  • Skógarmenntun er mikilvæg til að leiðrétta megi ýmsar ranghugmyndir um skógrækt og skógarnytjar og til að hámarka megi þau gæði sem skógar og tré leggja til sjálbrærrar þróunar.

2. Birtu myndbandið þitt á eigin síðum á samfélagsmiðlum og gleymdu ekki að hafa með myllumerki verkefnisins: #GlobalForestEducation

3. Vinsamlega merktu aðstandendur verkefnisins líka á Twitter og Facebook og sömuleiðis alla sem þú heldur að gætu haft áhuga á verkefninu, hvort sem það er í heimahéraði, í landshlutanum eða á landsvísu. Hér eru merkimiðar sem vert er að nota:

  • Twitter: @FAOForestry @itto_sfm @IUFRO
  • Facebook: @ITTOSFM @IUFRO

4. Sendu verkefninu tölvupóst á netfangið NFOI@fao.org með hlekkjum á myndbandið þitt svo starfsfólk verkefnisins geti tekið þátt í að dreifa því og deila með samstarfsfólki.

Þátttakendur eru beðnir að senda myndböndin líka beint til verkefnisins. Best er að nota netfangið NFOI@fao.org á deilivefnum WeTransfer til að senda skrána. Þar með er auðveldara að nota myndböndin til kynningar á ofangreindum samfélagsmiðlum. Innsendum myndböndum verður svo safnað saman og þau notuð sem kynningarefni, til dæmis á ráðstefnunni sem haldin verður um skógarmenntun og -fræðslu, International Conference on Forest Education.

Texti: Pétur Halldórsson