Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2020 verður eingöngu opinn kjörnum aðalfundarfulltrúum. Fundurinn verður einungis haldinn til að afgreiða nauðsynleg aðalfundarstörf.

Til stóð að Skógræktarfélag Mosfellsbæjar yrði gestgjafi fundarins að þessu sinni og þar átti fundurinn að fara fram dagana 4.-6. september. Sú tilkynning hefur nú borist frá Skógræktarfélagi Íslands að aðalfundurinn verði ekki haldinn með hefðbundnum hætti þetta árið. Fundurinn verður haldinn í Reykjavík 5. september en ekki í Mosfellsbæ. Á fundinn verða eingöngu fulltrúar skógræktarfélaga boðaðir. Ekki er gert ráð fyrir gestum eða mökum fulltrúa. Efni fundarins verður fyrst og fremst afgreiðsla nauðsynlegra skylduverkefna aðalfundar eins og getið er um í 6. grein laga félagsins. Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á vef Skógræktarfélags Íslands.

Ástæðan fyrir breytingunni er kórónuveirufaraldurinn og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna annarrar bylgju hans. Í tilkynningunni frá Skógræktarfélagi Íslands segir að aðalfundurinn verði að óbreyttu haldinn með hefðbundnum hætti í Mosfellsbæ 2021.

Texti: Pétur Halldórsson