Á þessum tíma fyrir tveimur árum réðst Skógrækt ríkisins í tilrauna- og þróunarverkefni í samstarfi við Skógráð ehf um sölu veiðileyfa á rjúpu í þjóðskógum landsins. Þótti fyrirkomulagið gefast vel og því hefur verið ákveðið að halda verkefninu áfram.

Á vefnum rjúpa.is geta veiðimenn skoðað veiðisvæðin, valið veiðidaga og lesið sér til um skilmála og verð veiðidags. Þá er mögulegt að prenta út kort með afmörkun valins svæðis þar sem hnitpunktar koma fram og einnig verður hægt að hlaða inn mörkum svæðanna í GPS tæki.

Til að kaupa veiðileyfi þarf að tilgreina veiðikortanúmer sem verður borið saman við gagnagrunn veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Takmarkaður fjöldi veiðileyfa er seldur á hvert svæði, sem kemur í veg fyrir að of margir gangi til rjúpna á sama veiðisvæðinu samtímis. Enn fremur er ætlast til þess að veiðimenn skili inn veiðitölum rafrænt að veiði lokinni. Með því móti hjálpa þeir til við að safna upplýsingum um stærð og viðgang rjúpnastofnsins.

Að öllum skilyrðum uppfylltum er mögulegt að kaupa veiðileyfi, greiða fyrir með kreditkorti og prenta út kvittun. Kvittunin er höfð meðferðis á veiðunum til að hægt sé að staðfesta gagnvart veiðiréttahafa eða lögreglu rétt veiðimanns til veiðanna.

Frekari upplýsingar er að finna á rjúpa.is.