Emilía Bergþórsdóttir eftir afhendingu styrksins 5. mars. Spennandi verður að sjá verðlunagripina se…
Emilía Bergþórsdóttir eftir afhendingu styrksins 5. mars. Spennandi verður að sjá verðlunagripina sem nota má til að rækta „verðlaunaskóga“. Ljósmynd af vef Hönnunarmiðstöðvar
 

Hugmynd að lífrænum verðlaunapeningum sem innihalda birkifræ var meðal verkefna sem hljóta styrk úr Hönnunarsjóði á þessu ári. Hugmyndin er sú að gripurinn verði veittur fyrir þátttöku í íþróttamótum barna og unglinga en að móti loknu geti krakkarnir sett hann í jörð og séð birkitré vaxa upp úr moldinni.

Frá þessu er sagt í frétt á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. Þar kemur fram að Hönnunarsjóður hafi 5. mars úthlutað 20 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 13 ferðastyrkjum til 10 verkefna. Að þessu sinni var 23,5 milljónum úthlutað en alls bárust 150 umsóknir um rúmar 255 milljónir.

Emilía Borgþórsdóttir í Vestmannaeyjum fékk styrk til að þróa og hanna þátttökuverðlaun unnin úr lífrænum massa sem inniheldur birkifræ. Hugmyndin er sú að þegar gripurinn hefur gert sitt gagn sem verðlaunagripur sé hægt að gróðursetja hann og sjá tré vaxa upp úr jörðinni. Þetta ýti undir hringrásarhagkerfið og kenni börnum á öllum aldri umhverfis- og skógarvernd. Vefmiðillinn Tígull í Vestmannaeyjum ræðir við Emilíu um hugmyndina og verðlaunin.

Þar segist hún eiga fjögur börn sem öll séu í íþróttum. Safnast hafi góð hrúga af þátttökuverðlaunum sem gaman sé að taka við en þau missi fljótt gildi sitt. „Mín umhverfisvitund vildi bara að tekið yrði fyrir þetta en þátttökuverðlaun íþróttaviðburða eru orðin rótgróin í okkar menningu,“ segir Emilía í viðtali við Tígul.

Tugþúsundum ódýrra verðlauna útdeilt

Emilía bendir á að á hverju ári séu afhentir tugir þúsunda verðlítilla verðlaunagripa sem búnir eru til úr innfluttu plasti og ódýrum málmum með tilheyrandi sóun og mengun. Þessu megi breyta með því að velja í staðinn íslenska hönnun sem nýtist til að bæta landið. Um leið eflist vitund barna og almennings um sjálfbærni og hringrásir. Hugmyndinni um þátttökuverðlaun úr lífrænum massa með birkifræi er ætlað að vera framlag í þeirri baráttu að þennan vanda. „Þegar dáðst hefur verið að gripnum er hægt að gróðursetja hann svo upp spretti verðlaunagarður. Þetta ýtir undir hringrásarhagkerfið og kennir börnum á öllum aldri umhverfis- og skógarvernd,“ segir Emilía.

Hvert íþróttafélag gæti átt sinn verðlaunagarð/lund

„Hugsið ykkur ef við tækjum keppnisskapið úr íþróttunum og settum það í umhverfisvitund og skógrækt það myndi gera mikið fyrir loftslagsmálin. Gaman væri að íþróttafélögin ættu sér lund þar sem börn geta gróðursett sín þátttökuverðlaun svo upp vaxi verðlaunagarður eða -lundur,“ heldur Emilía áfram. Hún segir að hugmyndin hafi kviknað fyrir tveimur árum og frá síðasta sumri hafi hún verið að kanna hentug efni og útfærslur með hjálp styrks úr Hönnunarsjóði sem hún fékk síðasta vor. Eftir ýmsar tilraunir er komin hugmynd að útfærslu sem nú er hægt að vinna áfram með verkefnastyrk úr Hönnunarsjóði. Búnar verða til frumgerðir, þær prófaðar og þróaðar áfram með því markmiði að til verði nothæf vara. Í sumar verða mismunandi gerðir prófaðar, bæði með tilliti til útlits og hvernig gengur að fá birkið til að vaxa upp úr þeim. „Vonandi munu börn og fullorðnir geta ræktað sín afrek í skógarlundum íþróttafélaganna innan tíðar,“ segir Emilía að lokum í spjallinu við Tígul.

Auk hugmyndar Emilíu fengu nokkrar fleiri hugmyndir styrk úr Hönnunarsjóði að þessu sinni. Nefna má hugmynd Jóns Helga Hólmgeirssonar sem snýst um að hanna og útfæra umhverfisvænan plötuspilara framleiddan úr íslenskum efnivið. Lena Marczyńska og Maciej Zimoch fá styrk til að nýta úrgangspappír, fiskbein og fræ til að búa til sterkan og áferðarfallegan pappír. Markmiðið er að búa til sjálfbært efni til að nota við framleiðslu á vörum sem brotna niður lífrænt og af þeim geti sprottið upp gróður. Vistbók - verkfæri fyrir sjálfbærari byggingariðnað fékk einnig styrk til þróunar og nokkur fleiri verkefni mætti nefna sem tengjast umhverfisvernd, sjálfbærni og nýtingu endurnýjanlegra efna. Fræðast má um öll þau verkefni sem hlutu styrk á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, Grósku.